140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

starfsumhverfi sjávarútvegsins.

[14:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þessi sérstaka umræða hefur verið allsérstök en hún endurspeglar kannski akkúrat þann vanda sem umræðan um sjávarútveginn er í. Það eru þessi ótrúlegu orð sem eru látin falla hvað eftir annað um þessa grein: Forréttindahópur, gjafakvóti, útvaldir aðilar, aðall, menn hafi fengið kvótann með óeðlilegum hætti — og ég veit ekki hvað og hvað. (Gripið fram í.)

Á milli 85 og 90% þeirra sem starfa í greininni í dag hafa keypt þær heimildir sem þeir eru með. Á að taka þær af þeim og fólkinu, þessum þúsundum sem vinna í greininni, á einni nóttu? Það er það sem þeir þingmenn sem hafa talað tala um. [Kliður í þingsal.] Eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir (Gripið fram í.) sem er stórhættulegur þingmaður þegar verið er að ræða um sjávarútveginn, verð ég að segja. Það er í rauninni ótrúlegt að hlusta (Gripið fram í: Það þekkja …) á þá sóðalegu umræðu sem er í gangi um þessa grein. [Háreysti í þingsal.] Það er með ólíkindum, frú forseti.

En ég þakka hæstv. ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála fyrir ræðu hans hér í dag. Sú ræða var skynsamleg og ég ber í raun mikla von núna til þess að umræðan og framtíð sjávarútvegsins muni fara á annað plan en hún hefur verið. Ráðherrann hefur svo sannarlega talað hér með þeim hætti í þessum ræðustól í dag.

Frú forseti. Það sem við verðum að hafa í huga líka er að milli 25 og 35 þús. Íslendingar, samkvæmt nýrri skýrslu um sjávarklasann, hafa atvinnu af þessari grein. Um störf þessa fólks má ekki ríkja óvissa til langs tíma. Þeirri óvissu verður vitanlega best eytt með því að ná einhvers konar framtíðarsátt um þessa grein. Það þýðir að sjálfsögðu að allir þurfa að gefa eitthvað eftir. Við sem höfum starfað í sáttanefndinni, sem var hin svokallaða stóra sáttanefnd, sem erum nokkrir þingmenn hér inni, vitum og getum staðfest að þar gáfu aðilar eins og Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda og sjómannasamtök eftir og sögðu: Ef þetta verður til þess að ná sátt þá gerum við það svona. Síðan hafa stjórnmálamenn því miður ekki nýtt tækifærið og komið því á framfæri. (Forseti hringir.) Það er á ábyrgð stjórnmálamanna.