140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[14:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir þær alvarlegu athugasemdir um þessa miklu breytingu að hún skuli rædd bara einu sinni. Þetta er þingmannatillaga sem hv. þm. Þór Saari, Róbert Marshall, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þráinn Bertelsson, Guðmundur Steingrímsson og Davíð Stefánsson fluttu. Því vil ég spyrja hvort forseta sé kunnugt um að flutningsmenn hafi verið spurðir um það hvort mætti breyta tillögunni svona mikið. Þetta er allt önnur tillaga.

Maður veltir fyrir sér: Getur það gerst að einhver þingmaður flytji þingmál á Alþingi í ákveðnum tilgangi og síðan taki nefndin sig til og geri eitthvað allt annað úr málinu sem hefði jafnvel þveröfug áhrif? Getur þingmaðurinn þá afsalað sér höfundarrétti að málinu eða því að hann hafi lagt það fram þegar slíkt gerist? Mér finnst það dálítið alvarlegt.