140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[14:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef hlýtt á úrskurð forseta og uni honum eins og óhjákvæmilegt er við þessar aðstæður en ég er ekki sáttur við þann úrskurð. Ég vísa annars vegar til þess að breytingartillagan sem fyrir liggur felur í sér miklu snöggsoðnara ferli en upphafleg tillaga hv. þm. Þórs Saaris. Allir sem lesa saman upphaflegu tillöguna og breytingartillöguna sjá í hendi sér að það er miklu snöggsoðnara ferli og ég leyfi mér að segja yfirborðslegra. Efnislega breytingin er því umtalsverð þó að ég viðurkenni að um grátt svæði getur verið að ræða, hvort sem það er dökkgrátt eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson segir eða ekki.

Varðandi kostnaðarmatið er ákvæði þingskapa býsna skýrt og býsna frjálslega farið með það ákvæði ef það skiptir engu máli.