140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[14:58]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem hv. þm. Birgir Ármannsson hefur haft uppi og eins hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Ekki er góður bragur á því að hefja þurfi umræður um jafnmikilvægt mál með því að deila um hvort málið sé þannig úr garði gert að það sé boðlegt fyrir þingið að taka það til umræðu.

Sérstaklega er það ámælisvert að kostnaðarmat skuli vanta. Því vil ég spyrja hæstv. forseta hvað varðar d-lið í tillögunni þar sem talað er um stjórnlagaráð. Er þetta stjórnlagaráð starfandi? Liggur skipunarbréf fyrir til þeirra einstaklinga? Mun það verða gefið út að nýju eða er það stjórnlagaráð sem hér er verið að vísa til sama stjórnlagaráðið og taldi sig hafa lokið störfum sínum? (Gripið fram í: Já, það er rétt.) Eða er þetta eitthvert nýtt stjórnlagaráð? Verður kosið aftur til þess eða með hvaða hætti verður staðið að þessu? Það er algerlega óboðlegt, frú forseti, að leggja þetta fram á þennan hátt.