140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[15:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að sú vegferð sem hér er farin með þetta mál er Alþingi til vansa og þess vegna kem ég hér upp.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan og hv. þm. Lúðvík Geirsson nefndi, að ég tel að þetta mál muni stöðvast. Ég mun, þannig að það liggi fyrir, berjast mjög hart gegn því að þetta ferli og þetta mál fari fram og verði gert að breytingum á stjórnarskrá vegna þess að ferlið er ekki í lagi. En það mun ekki verða ég eða einhverjir þingmenn sem stöðva þetta mál, málið sjálft mun stöðvast vegna þess að undirbúningurinn, utanumhaldið er slíkt.

Málið mun klúðrast, hv. þingmenn, (Gripið fram í.) og það mun ekki þurfa okkur sem eru á móti því til þess, það er meginástæðan. Ég er hins vegar viss um að ræður eins og hv. þm. Lúðvík Geirsson flutti — nú vil ég koma því í þingtíðindi — verða fluttar síðar á árinu og í byrjun þess næsta vegna þess að þá mun það ágæta fólk sem hér hefur talað fyrir þessum breytingum reyna að kenna öðrum um klúðrið. Þannig verður það. En það er þeirra að þetta mun klúðrast.

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. forseti (Forseti hringir.) verði því miður að grípa til gamalla húsráða varðandi hæstv. utanríkisráðherra og þvo honum um munninn því að það er ljótt að segja ósatt.