140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[15:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég stíg hér upp til að taka undir þau sjónarmið að málið hafi breyst mjög í meðferð þingnefndar og gagnrýna skortinn á kostnaðarmati sem hlýtur að hafa áhrif á það hvernig þingið getur tekið á málum sem þessu. Efnislega umræðan um málið fer ekki fram undir þessum dagskrárlið heldur fer hún væntanlega fram á eftir, en ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á því hve hæstv. utanríkisráðherra er nú orðinn mikill talsmaður þess að málið fái framgang. Það rifjar upp fundi forkólfa ríkisstjórnarinnar með þingmönnum Hreyfingarinnar sem lögðu fram þetta mál og haldnir voru af því tilefni, (Gripið fram í: Já.) eins og sagt var, að ríkisstjórnin studdist ekki lengur við meiri hluta í þinginu.

Nú er komið í ljós að ráðherrarnir berjast mjög fyrir því að Hreyfingin fái þetta mál í gegn, (Gripið fram í: Rétt.) sem hlýtur að vera vegna þess að menn hafa fyrir jólin komist að samkomulagi um að (Gripið fram í.) ráðherrarnir og ríkisstjórnin mundu sjá til þess að málið fengi afgreiðslu út úr nefndinni og framgang í þinginu vegna þess að það er (Gripið fram í.) skilyrði þess að Hreyfingin ætli að halda ríkisstjórninni á lífi. [Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.)