140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[15:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil beina því til yðar að hafa hugfast að það mál sem hér er fyrir okkur snýr að sjálfri stjórnarskránni. Það getur ekki verið boðlegt fyrir Alþingi Íslendinga að málatilbúnaðurinn skuli vera þannig að yfir höfuð skuli vera vafi á því og hér standi deilur um það hvort plaggið sem verið er að ræða sé tækt til umræðu. (Gripið fram í.) Það kann að vera að hv. þingmanni þyki þetta fyndið en sá sem hér stendur hefur ekkert gaman af því þegar það er (Gripið fram í.) t.d. þannig í þinginu að lögð sé fram þingsályktunartillaga án kostnaðarmats.

Frú forseti. Við hefðum þurft að geta skoðað kostnaðarmat áður en til umræðu kæmi. Það dugar ekki að hér komi bara framsögumaður málsins og ræði það. Enn á ný, frú forseti, vil ég árétta: Hér er talað um stjórnlagaþing. Er það hið sama þing og Hæstiréttur dæmdi að (Forseti hringir.) kosning þess væri ógild (Gripið fram í: Já.) eða er þetta eitthvert annað stjórnlagaþing? Verður gefið út, frú forseti, sérstakt embættisbréf til þessara einstaklinga og hvaða einstaklingar eru það? Þetta er aldeilis furðulegt, (Forseti hringir.) frú forseti.