140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[15:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst að lýsa vonbrigðum mínum með að þingmenn geti ekki — það er fullkomlega eðlilegt að gagnrýna hvernig staðið er að málum og ekkert að því, en það veldur mér vonbrigðum að þá sé alltaf talað um hundavað, vandræði og klúður og annað þar fram eftir götunum. Mér finnst einhvern veginn (Gripið fram í.) að fólk eigi að reyna að nota önnur orð um það, (Gripið fram í: Vægt til orða tekið.) vægt til orða tekið.

(Forseti (ÁRJ): Ég vil biðja hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Í annan stað segja menn og er mikið niðri fyrir að við séum að fjalla um grundvallarlögin, um stjórnarskrána sjálfa og þetta sé mjög mikilsvert. Það er vissulega rétt. En hvað er verið að leggja hér til? Verið er að leggja til að hafa samráð við fólkið í landinu um stjórnarskrána. Það er nú ekki flóknara en það. Er það það sem fólk hefur svo mikið á móti hér? Vægt til orða tekið. [Frammíköll í þingsal.]