140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur fram breytingar við tillögu til þingsályktunar um meðferð á tillögum stjórnlagaráðs um frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga. Nefndarálit meiri hlutans er að finna á þskj. 830 og breytingartillögurnar á þskj. 831.

Í upphaflegu tillögunni, sem er á þskj. 6, er lagt til að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tillögur að nýrri stjórnarskrá samhliða forsetakosningum í júní 2012 og jafnframt lagt til hvernig vinna eigi að málinu fram að þeim tíma. Meðal annars var lagt til að leitað yrði til sjö manna sérfræðinganefndar, stjórnlaganefndar svokallaðrar, og einnig til stjórnlagaráðs.

Stjórnlaganefnd var ætlað að leggja heildstætt mat á frumvarpið og einnig að annast kynningu á tillögunum og hugsanlegum breytingartillögum. Í starfi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kom snemma í ljós að stjórnlaganefndin taldi sig hafa skilað hlutverki sínu. Ekki voru því forsendur til að leita frekar til þeirrar nefndar þó að einstakir nefndarmenn hafi orðið við beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fundað með henni.

Hvað varðar stjórnlagaráð stendur orðrétt í skilabréfi þess, dagsettu 29. júlí 2011, með leyfi forseta:

„Komi fram hugmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í stjórnlagaráði sig reiðubúna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.“

Þess vegna, virðulegi forseti, er eðlilegt að leggja fram þær breytingar á þingsályktunartillögunni sem hér eru til umræðu en þær ganga einmitt út á að stjórnlagaráðið verði kallað saman til fjögurra daga fundar þar sem tekin verði til meðferðar helstu álitamál sem við teljum ástæðu til að skoða nánar. Við mat á því hvaða málefni þetta eru verður stuðst við það sem fram hefur komið í máli gesta sem komið hafa á fund nefndarinnar vegna máls nr. 3, þ.e. skýrslu um tillögur stjórnlagaráðs, umsagnir sem borist hafa, en þær eru á áttunda tuginn, og loks þau málefni sem helst hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Þetta er í fullu samræmi við samráð það sem lagt var til í upphaflegu þingsályktunartillögunni.

Nú er tími til að stíga næsta skref á leiðinni að þjóðaratkvæðagreiðslu sem áætlað er að fari fram samhliða forsetakosningum hinn 30. júní, en tillögu þar um þarf að samþykkja hér á þinginu eigi síðar en 29. mars, samkvæmt lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er gert ráð fyrir að tillögur stjórnlagaráðs, með hugsanlegum breytingum, fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu samfara forsetakosningunum. Þar yrði spurt um viðhorf kjósenda til tillagna stjórnlagaráðsins og þar að auki lagðar fram nokkrar grundvallarspurningar sem fólk gæti sagt álit sitt á.

Í breytingartillögunum er lagt til að fulltrúum í stjórnlagaráði verði greidd þóknun fyrir störf sín á fundum sem samsvari hlutfallslega þeim launum sem þeir nutu á starfstíma stjórnlagaráðs. Kostnaður við fundinn og þóknun til fulltrúa í ráðinu greiðist úr ríkissjóði. Undirbúningur og boðun fulltrúa stjórnlagaráðs til vinnufundarins verði í höndum skrifstofu Alþingis sem sjái ráðinu fyrir fundaraðstöðu og annarri nauðsynlegri aðstoð, þar á meðal starfsmönnum. Gert er ráð fyrir að þessi kostnaður verði á bilinu 7–10 milljónir. Er þá miðað við heildstætt mat. Þar er reiknað inn í launakostnaður fulltrúa, launakostnaður starfsmanna og húsaleiga á sal eða sölum og sérfræðikostnaður ef einhver verður. Þeir sem sáu um undirbúning stjórnlagaráðsins, þegar það sat, treysta sér ekki til að gefa nákvæmari kostnaðargreiningu á þessu stigi því að ekki er nákvæmlega vitað hverjar þarfir þessa fundar verða, en það mun liggja fyrir.

Einnig er lagt til að skrifstofa Alþingis standi fyrir víðtækri kynningu á efni tillagnanna sem bornar verða upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni þegar að því kemur, í samræmi við ákvæði 6. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Meiri hlutinn telur einnig eðlilegt að fjölmiðlar taki þátt í þeirri kynningu og þá sérstaklega Ríkisútvarpið, sem hefur þegar staðið fyrir fræðslu- og umræðuþáttum um þetta efni.

Forseti. Inngangur minn að þessari umræðu þarf ekki að vera lengri. Tilgangur málsmeðferðarinnar sem lögð er til er einfaldlega að efla samráð, fyrst við stjórnlagaráðið, sem gerst þekkir tillögurnar sem liggja fyrir, og síðan við fólkið í landinu, sem boðið verður að segja skoðun sína á tillögunum í heild og einnig á nokkrum grundvallarspurningum sem kunna að ráða úrslitum fyrir hvern og einn um hvort hann eða hún felli sig við þær tillögur sem stjórnlagaráðið hefur lagt fram.

Ég mun síðar í þessari umræðu setja fram þær spurningar sem lagðar verða fyrir stjórnlagaráð.