140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var endaslepp framsöguræða, sú snubbóttasta sem ég hef heyrt í nokkru máli. Ég hef það enda á tilfinningunni að formaður nefndarinnar hafi alls enga tilfinningu fyrir þessu máli og engan eldmóð, eins og þetta er uppsett. Málið er nefnilega komið alla leið út í skurð. Það er merkilegt að heyra að framsögumaður segi í framsöguræðu sinni: Ég kem með restina af ræðunni seinna í dag þegar unnið hefur verið úr því að hverju eigi að spyrja stjórnlagaráð og eftir hverju eigi að vinna. — Þetta eru forkastanleg vinnubrögð, frú forseti, og Alþingi ekki til sóma.

Í framhaldi af þessu langar mig til að beina spurningu til framsögumannsins, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur: Hvers vegna var málið tekið úr því ferli að Lagastofnun Háskóla Íslands mundi samlesa þessa skýrslu við stjórnarskrá Íslands eins og öll stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin var búin að samþykkja? Hvers vegna var málið tekið úr höndum Lagastofnunar? Var það vegna þess að Lagastofnun Háskóla Íslands taldi að það væri svo umfangsmikið og vandasamt verk að gera tillögu að breytingu á stjórnarskránni að það tæki að minnsta kosti eitt ár? Er það ástæðan fyrir því að keyra þarf málið svo ófaglega í staðinn?

Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og á hendur ríkisstjórnarinnar á þessu máli, að vera að taka tillögu að breytingum á stjórnarskránni frá Lagastofnun Háskóla Íslands, þar sem við erum með alla okkar sérfræðinga, og setja það aftur inn í stjórnlagaráð, sem er umboðslaust og hefur lokið störfum samkvæmt lögum.