140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, þetta hefur ekki verið rætt við RÚV enda kemur fram í tillögunni að það sé ósk meiri hluta nefndarinnar að þetta verði gert í samráði við RÚV. Ég vil benda þingmanninum á að tillagan hefur ekki verið samþykkt. Þess vegna hef ég ekki talað við neinn um að gera eitthvað í framhaldi af henni, það á eftir að samþykkja hana. (Gripið fram í: Það er í tillögunni.) Já, það er í þessari tillögu en hún hefur ekki verið samþykkt, það er það sem ég er að segja. Hún er til umræðu og það verður gert síðar.

Já, þessar spurningar hafa verið bornar upp í nefndinni. Nefndarstarfið er hins vegar þegar kemur að þessu máli, svo að ég segi bara eins og er, ekki þannig að þar verði mikil samræða eða neitt í þá áttina um það. Þrír af níu í nefndinni eru ekki tilbúnir að ræða þetta á þeim nótum sem sex í nefndinni eru. Þess vegna hafa tillögurnar ekki verið samþykktar en þær hafa vissulega verið bornar upp þar eða að minnsta kosti sagt frá þeim, ég veit ekki hvernig ég á að orða það. Það þýðir ekkert að bera neitt upp í þessari nefnd. (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.]

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að virða að hér ræðast tveir þingmenn við í andsvörum og gefa þeim tækifæri til að ljúka því.)