140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin, þau vekja mig mjög til umhugsunar. Þessi skyndilega breyting á vinnulagi og verklagi nefndarinnar eða viðhorfi nefndarinnar segir mér bara eitt, sem dregið hefur verið fram fyrr í dag: Að mínu mati virðist stjórnarskráin, ég hef reyndar sagt það áður í umfjöllun um stjórnarskrána, vera notuð sem skiptimynt í brölti ríkisstjórnarinnar til að halda í völdin valdanna vegna. Það vekur mig mjög til umhugsunar þetta vinnulag þó að ég ætli ekki að setja út á vinnulag einstakra þingmanna í stjórnskipunarnefnd.

Ég skil hv. þingmann rétt eins og ég skil dóm Hæstaréttar í síðustu viku: Stjórnarskráin var ekki að bregðast okkur. Hv. þingmaður segir að stjórnarskráin hafi ekki brugðist okkur í því máli, þannig að því sé haldið til haga. Menn koma hér upp og segja aftur og aftur, tyggja það aftur og aftur, sérstaklega þeir sem vilja kollvarpa stjórnarskránni eins og hún er núna, að stjórnarskránni hafi ekki verið breytt. Það er eins og menn hafi gleymt því algjörlega að settar hafa verið fram og samþykktar mjög veigamiklar breytingar á henni í gegnum tíðina — breytingar sem Norðmenn, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, eru að taka um þrjú, fjögur, jafnvel fimm ár í að breyta. Þar er um að ræða þessa stóru kafla er tengjast mannréttindum. Við breyttum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar stórkostlega 1995. Við fórum líka í stórar og miklar breytingar á stjórnarskránni 1999 í tengslum við kjördæmaskipunina. Það var ekki létt verk ef menn halda það.

Ég ítreka spurningu mína til hv. þingmanns vegna reynslu hans í stjórnarskrárnefndinni svokölluðu, sem var meðal annars undir forsæti Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi þingmanns og framsóknarmanns. Ég hafði það lengi vel á tilfinningunni að hægt væri að ná mjög mikilvægri niðurstöðu, þverpólitískri niðurstöðu, ef menn hefðu farið í vinnu við ákveðna kafla sem tengjast forsetaembættinu og sem tengjast auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ég spyr hv. þingmann: Er það réttur skilningur hjá mér?