140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég náði ekki að svara þessari tilteknu spurningu hv. þingmanns hér rétt áðan.

Sannast sagna var það svo að á þeim tveimur árum sem sú stjórnarskrárnefnd starfaði nálguðust menn niðurstöðu um flesta þætti. Það var tilfinning okkar sem vorum í því starfi að við værum alls ekki langt frá niðurstöðu um allmargar afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni. Í upphafi var lagt upp með að endurskoða þrjá kafla. Það urðu síðan fleiri atriði sem komu inn í það starf. Um sátt var að ræða í því samhengi meðal annars um auðlindaákvæði, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og fleira, ákvæði um breytingar á því hvernig eigi að breyta stjórnarskrá o.s.frv. — menn voru komnir býsna langt með marga þessa hluti.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi formann þeirrar nefndar, Jón Kristjánsson, á nafn. Hann lýsti því svo, á fundi í allsherjarnefnd Alþingis í fyrravetur, að ágreiningur um ákvæðið um synjunarvald eða málskotsrétt forseta í 26. gr. hefði verið stóra vandamálið. Ég deili því sjónarmiði. Það var stóra vandamálið. Það var alveg ljóst að þáverandi stjórnarandstaða, sérstaklega Samfylkingin, var mjög þversum gegn breytingum á því ákvæði. Það er alveg ljóst.

Auðvitað var fleira óklárað í þessu verki þegar sú nefnd skilaði áfangaskýrslu í febrúar 2007. En mitt mat var þannig, og ég hygg flestra sem í nefndinni sátu, að við höfum nálgast mjög mikið um töluvert miklar og veigamiklar breytingar á stjórnarskránni í því starfi.