140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ljósi síðasta atriðisins sem hv. þingmaður nefndi þá tek ég undir að það er kannski ekki útlit fyrir að stjórnlagaráð mundi á fjórum dögum gera veigamiklar breytingar á einhverju sem það skilaði af sér eftir fjögurra mánaða vinnu í fyrra. Ég held að það sé nokkuð raunhæft mat.

Ég ætla svo sem ekki að fjalla um aðra þætti í andsvari hv. þingmanns nema að það kom fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að Lagastofnun Háskólans hafi talið sig þurfa mikinn tíma, allt að eitt ár og þó nokkurt fjármagn, til að vinna að því verki sem hugmyndin var að fela Lagastofnun. Það var ljóst að meiri hlutinn taldi að svo mikið lægi á þessu að ekki væri forsenda til að fara fram með málið með þeim hætti sem upphaflega var gert ráð fyrir.

Ég var þeirrar skoðunar að það væri mikið gagn að því að fá Lagastofnun til að gera eins og menn kölluðu í daglegu tali í nefndinni „álagspróf“ á tillögum stjórnlagaráðs. Ég er þeirrar skoðunar að ef ekki voru forsendur til að semja um það verk við Lagastofnun hefði engu að síður einhvers konar vinna í því sambandi átt að eiga sér stað. Ég tel nauðsynlegt að slík vinna fari fram og mér finnst mikilvægt að hún fari fram áður en menn fara í það til dæmis að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.