140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég hef verið að benda á varðandi þá breytingartillögu sem nú liggur fyrir þinginu er að það vanti einmitt þekkingarflæði á milli þeirra fræðimanna sem hafa komið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og svo stjórnlagaráðs því að það eru upplýsingar sem við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum. Við höfum fengið mjög færa stjórnskipunarfræðinga, sérfræðinga á sviði auðlindaréttar, sérfræðinga á sviði umhverfisréttar, til nefndarinnar. Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætti að vinna með þessar upplýsingar og þá miklu gagnrýni sem þessir aðilar komu með fyrir nefndina. Þarna er verið að klippa á þá þekkingu sem nefndin býr yfir nú eftir að hafa verið með þetta mál á dagskrá frá 1. október, því að stjórnlagaráð hefur ekki þessar upplýsingar í höndunum til að fara að álykta á ný um það sem það er búið að skila til þingsins.

Frú forseti. Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna sú leið er farin að kalla stjórnlagaráð saman til fjögurra daga fundar, svokallaðrar langrar helgar eins og kom fram í nefndinni, til að fara að ræða tillögur sínar upp á nýtt þegar svo óljóst er hvað það á að ræða og helst það sem það hefur þegar rætt.

Mig langar að spyrja þingmanninn í framhaldi af þessu, af því að skyndilega lá svo á þessari vinnu og skyndilega var svo mikil pressa á að þetta yrði klárað: Getur verið að ríkisstjórnin sé að blanda stjórnarskrármálinu saman við Evrópusambandsumsóknina? Í stjórnarskránni er ákvæði um fullveldisframsal þjóðarinnar, ekki er hægt að ganga í ESB nema búið sé að breyta því ákvæði í stjórnarskránni. Í skýrslunni er til dæmis kæruaðild samkvæmt Árósasamningnum sem er sótt til Evrópusambandsins (Forseti hringir.) og einnig það að Ríkisendurskoðun skuli njóta sjálfstæðis samkvæmt stjórnarskrá en hingað til hefur stjórnarskrá (Forseti hringir.) í mínum huga átt að vernda þegna landsins en ekki ríkisstofnanir. Er það álit þingmannsins að samhengi sé þarna á milli?