140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get í stuttu máli svarað hv. þingmanni þannig að auðvitað er ákveðið samhengi þarna á milli. Það er auðvitað þannig og það vitum við og fyrir því liggja mörg álit að Evrópusambandsaðild er óhugsandi að óbreyttri stjórnarskrá. Það er samdóma mat þeirra fræðimanna sem um það hafa fjallað. Hins vegar er málið kannski stærra, viðameira og flóknara en bara það, en ég er ekki í vafa um að Evrópusambandsaðildin er mjög ofarlega í huga sumra í þinginu. Ég tel samt að það geti verið alveg ágætar og vel meinandi ástæður á bak við vilja margra til að gera ýmsar aðrar breytingar en auðvitað er samhengið fyrir hendi hvað þetta tiltekna atriði varðar.

Varðandi málið og málsmeðferðina í heild verð ég að segja, bara til að gera langa sögu stutta, að mér finnst að hér sé lagt upp með afar ómarkvisst og ruglingslegt ferli. Ég heyri á meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og það hefur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir líka heyrt, að meiri hlutanum finnist þetta allt liggja mjög ljóst fyrir og eigi ekki að valda neinum ruglingi eða vafa. Ég deili ekki þeirri skoðun og vísa til þess sem ég sagði áðan í framsöguræðu minni um það efni.