140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð því miður að vísa þessari spurningu til nefndarritara stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ákveðið var á nefndarfundi sem ég man ekki alveg hvenær var, mig minnir að það hafi verið fyrir jól, að fela Lagastofnun Háskóla Íslands að fara í það sem meiri hluti kallaði álagspróf á þeirri skýrslu sem lá fyrir nefndinni og þá var fyrirséð að nefndin mundi fá smáfrí frá þeirri vinnu, því að eins og ég hef bent á er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að drukkna í verkefnum. Ég held að það telji bráðum tæplega 30 skýrslur sem við eigum eftir að afgreiða. Við eigum eftir að afgreiða margar skýrslur frá Ríkisendurskoðun, við eigum eftir að afgreiða skýrslu frá umboðsmanni Alþingis fyrir árin 2009, 2010 og 2011. Og það kemst ekkert á dagskrá nefndarinnar nema þetta mál. Ég bið því þingmanninn að vísa spurningunni til ritara nefndarinnar því að ég hef dagsetningarnar ekki á takteinum.

Þegar ljóst er að Lagastofnun Háskóla Íslands segir: Ja, þetta er svo vandasamt og þetta er tillaga að breytingum á stjórnarskrá sem verður að vanda mjög til verksins með og við verðum að fá í það bæði fjármagn og langan tíma, a.m.k. ár, þá var tekin sú ákvörðun af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að taka málið til sín aftur. Það gerðist líklega á viku, hálfum mánuði, ég man ekki alveg nákvæmlega hvernig það var. Svoleiðis var það. Það er ágætt að hv. þingmaður rifji það upp, líklega var hann ekki orðinn þingmaður þá.

Ég ætla að minna á í ljósi þessarar stjórnarskrárumræðu að stjórnarskrá Íslands felldi ekki íslenskt samfélag. Það voru fjármálareglur sem við þurftum að taka upp í gegnum Evrópusambandið eftir að við urðum aðilar að EES-samningnum. Það eru fyrst og fremst þær reglur sem felldu íslenskt samfélag, ekki stjórnarskrá Íslands, samanber dóminn sem féll í Hæstarétti í síðustu viku yfir ríkisstjórn Íslands en hún neitar að fara.