140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:56]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var afar fróðlegt, ég get ekki sagt annað. Ég valdi þetta dæmi sem spurningu til hv. þingmanns einungis til að kanna hvernig svarið kæmi vegna þess að ég upplifði það með nákvæmlega sama hætti sem óvandað og villandi eins og margt, því miður, af þeirri umfjöllun sem hér hefur farið fram.

Fyrir það fyrsta samþykkti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd aldrei og hefur aldrei samþykkt að fela Lagastofnun Háskólans eitt eða neitt. Hún sendi hins vegar fulltrúa sína, bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu, á fund stofnunarinnar til að leita eftir möguleikum á því að hún tæki að sér ákveðið verkefni. Það var aldrei gengið frá því að stofnunin tæki að sér það verkefni enda kom í ljós að stofnunin taldi sig þurfa þannig tíma og fjármuni til að geta farið í verkið.

Hins vegar bauðst stofnunin til að senda nefndinni ákveðna verkáætlun um hvernig hún sæi fyrir sér að fara í verkefnið, ég held að liðið sé a.m.k. á annan mánuð síðan, sú verkáætlun hefur aldrei birst, hún hefur því aldrei komið fram. Nefndin hefur hvorki samþykkt að fela Lagastofnun Háskólans þetta verkefni né hefur hún samþykkt að hafna því að hún tæki það að sér. Ég vil að þetta sé á hreinu þannig að menn átti sig á því að það er ekki allt sannleikanum samkvæmt sem fer fram í umræðunni eins og málin eru máluð hér í svartasta myrkur í þeirri umræðu sem farið hefur fram.