140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi nú eins og maðurinn: Þvílík smjörklípa. Ég geri mér alveg fulla grein fyrir því, virðulegi forseti, að það er ekki aðeins í þessu máli heldur í flestum málum sem hv. þingmenn eru að reyna að gera mig ótrúverðuga og ég verð bara að sitja undir því. Bið ég því þingmanninn — sem mig minnir að hafi ekki verið orðinn þingmaður þá, heldur einungis varaþingmaður og ekki kominn inn á þing, en ég skal ekki segja með dagsetningarnar — að lesa nefndarálit mitt aftur.

Með leyfi forseta, stendur þar:

„Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd samþykkti að beina skýrslu stjórnlagaráðs til Lagastofnunar Háskóla Íslands til úrvinnslu, samlestrar og samræmingar. Tók stofnunin vel í erindi nefndarinnar og taldi að verkið væri svo vandasamt og umfangsmikið …“

Þetta var kallað álagspróf, ég nota önnur orð um þetta, þetta var kallað álagspróf hjá meiri hlutanum, en þau skilaboð komu frá háskólanum að þetta tæki ár og það vantaði mikið fjármagn með þessu. Þar með var bakkað út úr þeirri ákvörðun.

Þingmaðurinn má sprikla hér eins og hann vill, að reyna að gera mig ótrúverðuga í þessu máli, en því miður tekst þingmanninum það ekki vegna þess að svona var málið. Enda er, eins og sjá má, málið komið inn í þingið með slíkri breytingartillögu að um nýtt mál er nánast að ræða vegna þess að skilaboðin eru þau að vanda þurfi til þess. Ef Lagastofnun Háskóla Íslands telur að lesa þurfi þetta í heilt ár til að gæta samræmingarsjónarmiða á milli lagagreina og til að það skarist ekki við önnur lög ber að lúta því. En ríkisstjórnarflokkarnir ætla ekki að hlusta á lögfræðielítuna í málinu eins og oft hefur komið fram fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Þingmaðurinn má halda áfram að efast um það að þetta hafi verið gert en þá fer hann líka villur vegar. Það stendur í nefndarálitinu hvernig þetta bar að.