140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:22]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það hefur komið mér á óvart í störfum mínum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nú í vetur hvað hafa verið á köflum undarlegar umræður um það stóra mál sem við erum með inni á borði, þ.e. nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Ég hafði ímyndað mér að því yrði tekið fagnandi í þeirri nýju og merku nefnd sem hefur fengið stórt hlutverk, það verkefni að takast á við þetta mikla viðfangsefni — það væri fagnaðarefni fyrir alla þá sem þar sitja að fá tækifæri til að koma að þeirri umræðu og leggja sitt lóð á vogarskálina og móta sameiginlega það ferli og þá vinnu og þau atriði sem menn teldu rétt að fara frekar yfir og hvernig við ætluðum að vinna þetta mál áfram.

Nei, þvert á móti hefur því miður sú staða verið uppi að sumir nefndarmenn, lítill hluti þó, hefur litið fyrst og fremst svo á hlutverk sitt að gera lítið úr þessari vinnu, gera lítið úr umræðu um stjórnarskrármálin yfir höfuð, gera lítið úr stjórnlagaráði og því að fyrir lægju drög að nýrri stjórnarskrá. Þessir pappírar væru nánast einskis virði, það væri ekkert gagn af þessu máli, það væru mjög skiptar skoðanir um það og hægt væri að draga fram yfirlýsingar og umsagnir frá fullt af aðilum úti í samfélaginu sem hefðu einhverjar aðrar skoðanir.

Á sama máta finnur maður svo, jafnundarlegt og það hljómar, að þegar málið er komið hingað inn í þingsali þá virðist einhvern veginn umræðan vera með þeim hætti að málið sé varhugavert og það eigi engan veginn við að einhverjir aðrir en þingið sjálft tjái sig eða vinni í málinu. Þá er það orðið hið versta mál að aðilar utan þingsalarins, sem hafi eitthvert umboð, stöðu eða hafi fengið tækifæri, hafi verið fengnir til að koma að þessari vinnu. Þjóðin á í raun og veru ekkert að hafa um þetta að segja. Þetta á að vera lokað og læst í sölum og vinnuherbergjum þingsins og jafnvel þar eru menn ekki tilbúnir að ræða málin af fullri alvöru. Þó eru undantekningar þar á, heiðarlegir og góðir fulltrúar minni hluta hafa komið fram með ágætisinnlegg og lagt sig mjög fram um það að fara ígrundað yfir málið.

Það mætti skilja það af umræðunni sem hér var fyrr í dag að það hefði allt verið í einhverju uppnámi í því ferli sem þetta mál hefur verið í í þinginu. Ég vil segja fyrir mína parta að sú vinna sem hefur farið fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur verið markviss og góð. Hér er um stórt og viðamikið verkefni að ræða. Málið hefur verið í mjög skýrum farvegi. Það er alveg ljóst að þegar tillögur stjórnlagaráðs komu til nefndarinnar í fyrrahaust þá var gefið mál að það yrði að fara yfir þá vinnu og að fram mundu koma ólík sjónarmið og álitaefni um ákveðna þætti í þeim tillögum. Mér datt ekki í hug, sama hversu ágæt og ítarleg vinna hefði farið fram í stjórnlagaráði, að líta svo á að það væri ekkert í tillögunum sem þyrfti ekki frekari skoðunar við, enda hafði verið bent á það af fulltrúum í stjórnlagaráði að menn hefðu haft mjög knappan tíma, menn hefðu gjarnan kosið að hafa lengri vinnutíma og betra svigrúm til að fara í gegnum öll þau stóru álitaefni. Það var einmitt metnaðarfullt af hálfu stjórnlagaráðs að horfa ekki til einhverrar takmörkunar á því hvað ráðið ætlaði að fara í gegnum heldur vildu menn hafa stjórnarskrána og allt undir í þeirri umræðu og það er birtingarmynd þeirrar tillögu sem við höfum í höndum.

Það mætti stundum halda af umræðunni að menn litu svo á að við værum komin á einhvern endapunkt og það væri ekkert annað eftir en að þingmenn réttu upp hendur í þingsalnum, með eða á móti. Ég held að það sé rétt að rifja það upp fyrir þingi og þjóð að við erum í miðju kafi, á miðri leið með þetta stóra verkefni. Við erum komin með drög að frumvarpi í hendur sem eru til yfirferðar og umsagnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nefndin hefur umboð og alla möguleika til að leita eftir áliti og umsögnum á því máli og á sama tíma og því hefur verið tekið fagnandi og menn hafa vísað í það að ýmsir aðilar hafi komið fyrir nefndina í vetur, hafi skilað þar inn umsögnum og hafi álit frá vinstri til hægri þá lýsa sömu aðilar því úr ræðupúlti á þingi að það sé ómögulegt og alls ófært að stjórnlagaráðið sjálft fái að tjá sig um þau álitaefni sem hafa komið fram í umræðunni í vetur. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég skil ekki þessa umræðu.

Auðvitað er það hluti af því ferli sem við erum að ganga í gegnum að stjórnlagaráðið komi að umræðunni á því stigi sem við erum stödd nú, enda kom það skýrt fram í skilagrein stjórnlagaráðs til þingsins að þeir óskuðu sérstaklega eftir því að fá að koma að málinu þegar það væri í þessum farvegi og það er vísað til þess sérstaklega í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar. Það er nákvæmlega það sem málið var lagt upp með strax í upphafi og við erum að vinna í því ferli.

Ég vek athygli á því að þegar þingsályktunartillaga Þórs Saaris og annarra ágætra þingmanna kom til umræðu í byrjun þings í október sl. fór fram ítarleg umræða í þingsal um það mál. Ég lýsti þá þeirri skoðun minni að ég væri efnislega sammála þeirri tillögu í öllum höfuðdráttum. Fyrir það fyrsta yrði að liggja alveg skýrt fyrir af hálfu þingsins hvernig við ætluðum að fara með þetta mál í framhaldinu, að tryggja yrði aðkomu þings og þjóðar í málinu alla leið. Þingið væri ekki með málið í sínum höndum til að klára það á nokkrum mánuðum. Við ættum eftir að eiga samtal við þjóðina með ýmsum hætti. Málið yrði jafnframt að vera eitt af forgangsmálum þingsins á þessum vetri og þá væntanlega á næsta þingi og næsta vetri líka. Og það yrði að fara fram opin og gegnsæ umræða. Þetta var mitt álit þegar málið kom inn í þingsal í október, þ.e. sú þingsályktunartillaga sem við erum að ræða, breytt að vísu en í öllum efnisatriðum sama tillaga og sömu lykiláherslur og voru lagðar fram í upphaflegri tillögu Þórs Saaris. Við höfum þurft að hnika til dagsetningum og öðrum smávegis útfærslum en í öllum lykilatriðum er farið fram með málið eins og menn lögðu til strax í upphafi þings, enda hefur flutningsmaður tillögunnar lýst því ítrekað yfir í dag að þessi tillaga sé honum mjög að skapi og útfærð á sama grunni og hann lagði til ásamt öðrum þingmönnum í október sl. Ég tel mikilvægt að við höfum þetta á hreinu.

Umræðan í þingnefndinni í vetur hefur verið ítarleg og er eins og ég nefndi áðan á ákveðnum byrjunarreit hvað það snertir að við höfum verið að safna að okkur athugasemdum, ábendingum og umsögnum, viðhorfum. Við höfum fengið formlegar umsagnir, heimsóknir og átt samtöl. Auðvitað liggur það ljóst fyrir að fulltrúar í stjórnlagaráði hafa fylgst vakandi með þeirri umræðu. Við höfum rætt við fulltrúa stjórnlagaráðs, bæði nefndin og einstakir fulltrúar í nefndinni, og ég varð ekki var við annað en að fulltrúar í stjórnlagaráði tækju því fagnandi. Ég hef ekki orðið var við nein önnur viðbrögð af hálfu þeirra fulltrúa eftir að sú útfærsla var lögð hér fyrir í tillöguformi að stjórnlagaráðið yrði kallað saman til fundar í mars til að fara yfir þessi mál. Það má alveg finna að því að sá tími sem stjórnlagaráði eru settir, fjórir virkir dagar, sé knappur.

Ég bendi á að stjórnlagaráðsfulltrúar, og ég hef fulla vitneskju um það, eru löngu farnir að búa sig undir þá vinnudaga og skipuleggja sig og viða í raun að sér öllum þeim ábendingum og athugasemdum sem hafa komið fram. Hér hefur verið talað á þann máta í umræðunni í dag að það sé alveg út í hött að stjórnlagaráð fari aftur yfir þær tillögur sem það skilaði af sér í fyrrahaust, endanlegu plaggi, eins og það sé einhver heilög ritning sem enginn megi hreyfa við eða bæta um betur. Það er þvert á móti eðlilegur farvegur að ráðið fái tækifæri til að bregðast við þeim ábendingum og athugasemdum sem hafa komið fram vegna þess að vissulega er í þeim mörgu ábendingum atriði sem rétt er að fara yfir og fá mat allra þeirra sem best til þekkja í málinu og hafa unnið með þessi gögn í lengri tíma, hvernig þeir meta þau og hvort ástæða sé til að gera þar hugsanlegar breytingar. Ég segi það fyrir mína parta að það verður mjög fróðlegt að sjá hvaða niðurstöðu stjórnarráð kemst að varðandi ýmis þau atriði. Ég ætla ekki að gefa mér neitt í þeim efnum. Ég treysti stjórnlagaráði fyllilega til að fara á yfirvegaðan og markvissan hátt yfir allt það sem hefur komið fram í umræðunni á undanförnum mánuðum og missirum.

Það er einn stærsti þátturinn í þeirri vinnu sem stendur yfir varðandi stjórnarskrármálið að við erum að kalla alla þjóðina til samræðu í þessu máli. Ég vek athygli á því, eins og ég gerði í ræðustól í síðustu viku, að í skýrslu um mannréttindamál á Íslandi er sérstaklega vakin athygli á því Íslandi til hróss af hálfu frænda okkar í Noregi að vinna við stjórnarskrána sé unnin í slíku samráði við þjóðina að eftir því er tekið. Það er nákvæmlega á þeim grunni, að það vekur eftirtekt, af því að það var nefnt fyrr í umræðunni í dag að Norðmenn hefðu eytt mörgum árum í að skoða tvo til þrjá kafla í stjórnarskrá sinni — það eru ágætisvinnubrögð líka — en þeir telja ástæðu til að vekja sérstaka athygli á því að við vinnum þetta í breiðu og góðu samstarfi við þjóðina.

Síðan er gert stórmál úr því að það eigi að vísa til þjóðarinnar í kosningum einhverjum hlutum sem enginn viti hverjir séu. Öll gögn og allur texti liggur skýr fyrir í þessu máli. Þetta er vinnuplagg sem við erum að vinna úr. Við ætlum að fá enn frekari vitnisburð frá þjóðinni um álit hennar og afstöðu til þessara þátta. Það er hægt að gera það með ýmsum hætti og við höfum verið að ræða það fram og til baka í nefndinni vegna þess að við gerum okkur grein fyrir að það er ekki endilega nein ein aðferð í þeim efnum. Það eru margar leiðir. Og einmitt til að hafa fjölbreytni hefur það verið rætt og nefnt af hálfu framsögumanns, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, að annars vegar verði frumvarpið eins og það liggur fyrir eða tillagan að frumvarpinu lögð fram til að fá álit þjóðarinnar á því hvort hún sé reiðubúin og sammála því að Alþingi vinni frumvarpið áfram á þeim grunni sem þar hefur verið lagður, já eða nei, almennt, og hins vegar verði valin úr sérstök atriði sem mest hafa verið uppi á borði hjá okkur í umræðunni nú í vetur sem álitaefni.

Það er búið að nefna nokkur álitaefni í umræðunni í dag, eins og málefni og stöðu forseta Íslands. Á að vera sérstakur kafli í stjórnarskrá sem snýr að fyrirkomulagi á kosningareglum eða á það að vera í sérstökum lögum? Hver á staða kirkjunnar að vera samkvæmt stjórnarskrá? Hvernig skal líta stöðu ráðherraábyrgðar í fjölskipuðu stjórnvaldi? Þannig mætti tína til fleiri atriði. Ég hef ekki orðið var við annað í þeirri umræðu sem hefur farið fram í okkar ágætu nefnd en að þeir nefndarmenn sem hafa tjáð sig, og þeir hafa flestir gert það, um þessi mál hafa verið að ræða nákvæmlega sömu fimm til átta atriðin. Það er ekki eins og 120 atriði séu undir í þessari umræðu. Nei, það eru þarna fimm til átta lykilatriði sem allir eru sammála um að skipti mestu að fá mat á og svör þjóðarinnar við, hvort hún vilji hafa þessa hluti á þennan veg eða einhvern annan. Þetta eru þau lykilverkefni sem blasa við og nú er kjörið tækifæri, það kemur upp í fangið á okkur akkúrat í miðju ferli þegar við erum að vinna með þetta frumvarp, þjóðin gengur til forsetakosninga á miðju sumri. Hefðum við getað hugsað okkur betra tækifæri vitandi það að upp undir 80% þjóðarinnar sem hefur kosningarrétt mun mæta í slíkar kosningar og við fáum tækifæri til að fá svör og viðbrögð frá stærstum hluta þjóðarinnar við þessum lykilatriðum? Kostnaður samfara þessu er algert aukaatriði vegna þess að við fáum þessar kosningar upp í hendurnar. Auðvitað nýtum við okkur það.

Ég ætla ekkert að útiloka það sem kom fram í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar að skoða megi aðrar leiðir — hvort það er nefnt í nefndaráliti 1. minni hluta — að menn nýti sér hugsanlega skoðanakannanir til að fá þar svör við ýmsum atriðum sem munu væntanlega koma frekar upp eða hafa verið uppi á borði hjá okkur í umræðunni. Ég held að menn eigi að nýta öll tækifæri til að fá svör við þeim hlutum sem við teljum ástæðu til, ekki útiloka eitt eða neitt í þeim efnum.

Mér finnst eins og verið sé að gefa þjóðinni svo villandi mynd af því í hvaða ferli og hvernig þetta verkefni eigi að ganga fyrir sig að full ástæða sé til að árétta það að við erum með frumvarpsdrög í höndum sem er efniviður í nýja stjórnarskrá. Við erum að leita eftir umsögn þjóðarinnar og allra þeirra sem vilja tjá sig um mat á þeim hlutum sem þar eru nefndir. Á grunni þeirrar yfirferðar mun verða lagt fram á hausti komanda, byrjun næsta þings, frumvarp að stjórnarskrá sem verður í umræðu og yfirferð hjá þinginu allan næsta vetur. Menn stefna að því og það hefur legið skýrt fyrir til að þingið nái að klára og afgreiða það frumvarp á vordögum 2013. Það er ferlið sem er fram undan, 14 heilir mánuðir. Við munum nota þann tíma vel og við höfum alla burði til þess og við höfum tíma til að leita álita og umsagna þjóðarinnar í því máli eins og við höfum verið að undirbúa. Ég segi það enn og aftur að það er alveg ástæðulaus sá ótti sem mér hefur fundist hljóma úr munni einstakra þingmanna, að hér séu menn að fara eitthvað fram úr sér, hér séu óvönduð vinnubrögð, hér viti menn ekki hvert þeir séu að fara. Vegurinn er alveg skýr og breiður og við vitum alveg hvert við erum að fara og við vitum líka hvenær við ætlum að ljúka þessu verki.