140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þingmanns var ágætislýsing á því í hve ótrúlegum ógöngum við erum með þessa endurskoðun stjórnarskrárinnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í stöðu stjórnlagaráðs sem var kosið á Alþingi með meirihlutaatkvæðagreiðslu. Hann talar um það sem einhvers konar stjórnarskrárgjafa sem virðist í hans huga vera æðra sett en Alþingi sjálft sem fer þó með stjórnarskrárvaldið, lagasetningarvaldið um stjórnskipunarmál. Hver er staða stjórnlagaráðs í huga hv. þingmanns?

Í öðru lagi spyr ég: Ætli það geti ekki verið að Norðmenn geri sér ekki grein fyrir því að kosning ráðsins hafi farið fram eftir að kjör þess hafði verið ógilt í Hæstarétti? Ekki tel ég það vera til mikillar eftirbreytni annars staðar eða tilefni til fagnaðarláta í öðrum löndum.

Í þriðja lagi vil ég mjög gjarnan bera það upp við hv. þingmann — sem á sínum tíma stóð fyrir íbúakosningu í Hafnarfirði um deiliskipulag þar í bæ, og kaus þar sem kjörinn fulltrúi að taka ekki afstöðu til þess með hvaða hætti réttast væri að íbúar í Hafnarfirði kysu — hvernig hann sjái þetta gerast í sumar, ef af því verður að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um drög stjórnlagaráðs eða einstaka spurningar. Ætlar enginn að bera ábyrgð á tillögunum? Eru þær ekki bornar upp af neinum, ekki einu sinni af meiri hluta stjórnskipunarnefndar? Eða ætlar hv. þingmaður að gera það sama og hann gerði í Hafnarfirði á sínum tíma að stíga til baka og segja: Þetta er úr okkar höndum, þetta er ekki mín tillaga? Það er (Forseti hringir.) þá sama hvort hún verður felld eða ekki, það er ekki á ábyrgð nokkurs manns.