140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:43]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar fyrirspurnir. Mér finnst þær góðar, virkilega góðar, og lykilatriði í þessu máli.

Staða stjórnlagaráðsins byggist á því hvernig Alþingi ákveður hverju sinni að fela ákveðnum aðila verkefni. Alþingi kaus til stjórnlagaráðs eftir að Hæstiréttur hafði ógilt atkvæðagreiðslu sem fór fram meðal þjóðarinnar út af tæknilegum atriðum. Niðurstöður eða álit stjórnlagaráðsins eru ekkert ómerkari fyrir það. Halda menn að tillögurnar hefðu litið öðruvísi út ef skýr niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefði verið látin standa í stað þess að Alþingi kæmi að málinu? Þingið kom stjórnlagaráði til starfa. Eina breytingin er sú að stjórnlagaráð starfaði þá í umboði þingsins en ekki þjóðarinnar. Það þýðir að þingið hefur enn umboð og stöðu gagnvart stjórnlagaráði og með þessari tillögu er það að fela stjórnlagaráði að vinna áfram úr þeim tillögum sem voru lagðar fyrir í haust nákvæmlega eins og stjórnlagaráð hafði boðist til að gera. Það liggur fyrir að við eigum aðgang að þessum fulltrúum. Þeir eru reiðubúnir til að koma frekar að málinu og munu gera það, verði þessi tillaga samþykkt.

Í öðru lagi varðandi íbúakosningar: Nákvæmlega með þeim hætti sem þá var, að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði lögðu málið fyrir íbúana, þá taldi ég og samstarfsmenn mínir ekki rétt að við værum að veita íbúum bæjarins einhverja leiðsögn í því hvernig menn ættu að kjósa. Á sama hátt mun ég líta á hlutverk mitt hér. Þær spurningar og þau álitaefni sem munu þá væntanlega fara fyrir landsmenn í þjóðaratkvæðagreiðslu verða ekki túlkaðar eða metnar af mér sem þingmanni gagnvart þjóðinni heldur munu aðrir væntanlega sjá um það. Ég reikna með að stjórnlagaráð, sem lagði fram þessar tillögur í upphafi, verði sá aðili sem tali fyrir þeim.