140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að stjórnlagaráðið starfar ekki í umboði þjóðarinnar vegna þess að kosningin var ógild. Ég tel það hafa verið afar misráðið að fara á svig við niðurstöðu sex hæstaréttardómara, sem voru allir sammála um að kosningin hafi verið ógild, og skipa ráðið engu að síður. En það sem þá gerðist var einmitt það sem hv. þingmaður nefndi, þar með var stjórnlagaráðið ekki að sinna verkefni í umboði þjóðarinnar heldur einungis í umboði stjórnarmeirihlutans sem greiddi því atkvæði á þinginu með stuðningi nokkurra viðbótarþingmanna.

Ég tel að það að standa að endurskoðun stjórnarskrárinnar á þennan hátt sé í raun mikil lítilsvirðing við það hlutverk sem Alþingi er falið við endurskoðun stjórnarskrárinnar samkvæmt stjórnarskránni sjálfri. Ég tel jafnframt að það sé með mestu ólíkindum ef þingmenn geta ekki einu sinni risið undir því hlutverki sínu að taka afstöðu til tillagna sem hingað berast um breytingar á stjórnarskránni. Nú á þetta sem sagt að gerast þannig að fram á að fara þjóðaratkvæðagreiðsla í sumar, sem einungis getur orðið ráðgefandi, og þeir sem að henni standa og ætla að bera erindið upp — að minnsta kosti hv. þingmaður, sjáum til hvernig verður með aðra — ætla ekki að taka afstöðu til þess hvort í þessu eru einhver skynsemi, einhver góð leiðsögn eða ekki. Þeir fría sig allri ábyrgð þannig að enginn sigri eða tapi í þessari kosningu, enginn ætlar að bera ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Það er eins gott að þvo hendur sínar af þessu sem allra fyrst. Sjá menn virkilega ekki hvert stefnir þegar menn (Forseti hringir.) haga verklagi með þessum hætti? Sjá menn þetta virkilega ekki? Ég bara trúi því ekki.