140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lúðvíki Geirssyni fyrir ágæta ræðu.

Setjum sem svo að nú fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla samhliða forsetakosningum um þetta frumvarp, kannski með einhverjum breytingum. Eins og hv. þingmaður sagði er þetta ekki endanlegt, þetta eru einhvers konar drög að stjórnarskrá. Gefum okkur að einhver hluti kjósenda sé ósáttur við eina eða tvær greinar, t.d. greinina sem heimilar ríkisstjórninni að ganga í Evrópusambandið fyrir hönd Íslands án þess að spyrja kóng eða prest, hvorki Alþingi né þjóðina, og menn séu almennt séð á móti þessari grein en sammála öllu hinu. Vegna þess arna greiða þeir ekki atkvæði með frumvarpinu. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað gerist ef þessi drög verða felld í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvað verður um málið? Er það bara dautt og ekkert gerist frekar?

Hann nefndi líka hugmyndina um skoðanakönnun. Það er áhugavert og ég spyr: Er ekki miklu skynsamlegra að fara með megingreinar í skoðanakönnun, jafnvel heilu kaflana? Þá getur maður fengið að vita hversu margir eru mjög hlynntir þeim, minna hlynntir og að meðaltali hverjir eru á móti því og hverjir mikið á móti. Gefur ekki skoðanakönnun miklu betri mynd af því sem fólkið vill í þessu efni og kannski leiðsögn fyrir Alþingi fyrir framhaldið og er auk þess miklu ódýrara?

Þá er spurningin: Hvað gerist ef maður fer í kosningu og telur sig vera að greiða atkvæði um stjórnarskrá Íslands? Svo kemur í ljós, ef þetta verður samþykkt, að það kemur einhver allt annar (Forseti hringir.) ungi út úr egginu?