140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:58]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar sem flutt var eftir að stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum um málsmeðferðina. Fyrir þá sem hlýtt hafa á umræðuna í dag hlýtur það að vekja athygli að þingið er nú, þremur árum eftir að ríkisstjórnin tók við völdum, í febrúar 2009, að ræða formið á stjórnarskránni, þ.e. verklagsformið. Verið er að ræða aðferðafræði. Það er líka eðlilegt vegna þess að á Alþingi hefur ekki í þau þrjú ár sem ríkisstjórnin hefur starfað, farið fram nein alvöru efnisleg umræða um þörfina fyrir breytingar á stjórnarskránni og þá hvaða breytingar væru þar brýnastar og hvers vegna. Það er bara rætt um formið. Það er bara rætt um aðferðafræði og hér ræðum við um hvort taka eigi tillögur stjórnlagaráðsins til frekari meðferðar, senda málið aftur til stjórnlagaráðs og síðan mögulega í framhaldinu að senda þær tillögur ásamt ákveðnum spurningum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn fer ekki fram nein efnisleg umræða á þinginu um stjórnarskrána sjálfa og hvaða atriði sé brýnt að taka til endurskoðunar.

Það sýnir betur en nokkuð annað að þeir sem ráða för í þessari vinnu hafa gefið frá sér hið stjórnarskrárbundna hlutverk þingsins, það hlutverk sitt að taka stjórnarskrána til endurskoðunar og bera ábyrgð á þeirri vinnu. Stjórnlagaráðinu var komið á fót með atkvæðagreiðslu í þinginu þar sem meiri hluti þingmanna ákvað að hunsa niðurstöðu Hæstaréttar og kjósa þennan hóp manna í stjórnlagaráð í stað þess sem áður átti að vera stjórnlagaþing. Ég hygg að það hafi aldrei áður gerst í þingsögunni að nokkurri nefnd eða nokkru ráði hafi verið komið á fót með atkvæðagreiðslu sem jafnað verður við það sem þarna gerðist. Þá er ég ekki bara að vísa til þess hversu mjög var horft fram hjá niðurstöðu Hæstaréttar og hún algerlega hunsuð efnislega, heldur horfi ég ekki síður til þess að þetta var hrein meirihlutakosning. Ég hygg að aldrei hafi eitt einasta ráð eða nefnd verið kosin á þinginu án þess að allir þingmenn ættu þess kost að velja fulltrúa sinn. Það hefur aldrei gerst. Það er einstakt á þinginu að þegar skipa á ráð eða nefnd að ekki eigi allir þingflokkar kost á því að tilnefna fulltrúa sína. Nei, það sem gerðist var einfaldlega það að meiri hluti þingsins tók sig saman og valdi hvern einasta fulltrúa og réttlætti það síðan með því að segja að Hæstiréttur hefði í raun og veru haft rangt fyrir sér. Sú umræða hefur farið fram áður.

Það er grundvallaratriði fyrir stöðu tillagna í þinginu sem við ræðum um og eins fyrir þjóðina. Ég virði það við þingmenn þegar þeir segja hreint út að stjórnlagaráðið hafi ekki starfað í umboði þjóðarinnar. Það er rétt hjá hv. þm. Lúðvík Geirssyni þegar hann segir að stjórnlagaráðið hafi að sjálfsögðu ekki starfað í umboði þjóðarinnar.

Við erum að sigla inn í vormánuði ársins 2012 og enn hefur ekki farið fram að nokkru marki efnisleg umræða um breytingar á stjórnarskránni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða í þingsal, þ.e. skipuleg vinna við að endurskoða einstaka kafla stjórnarskrárinnar, heldur hefur því í raun verið stýrt þannig að stjórnlagaráðstillögurnar hafa ráðið för. Það er val þeirra sem stýra nefndinni og þess meiri hluta sem þar eru að hafa þann háttinn á og hefur það leitt til þeirrar niðurstöðu að nefndin hefur fengið sérfræðinga, hvern á fætur öðrum, sem tjá sig á þann veg að þær tillögur séu efnislega ótækar sem grundvöllur að nýrri stjórnarskrá Íslands. Þá er ég að vísa til þess sem margítrekað hefur komið fram hjá helstu fræðimönnum okkar á því sviði. Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að umsagnir hafi borist frá yfir 200 einstaklingum sem lýstu yfir algerum stuðningi við frumvarp stjórnlagaráðs og kröfðust þess að þjóðin fengi að kjósa um málið óbreytt sem fyrst. Samkvæmt upplýsingum úr nefndinni er hér um að ræða það sem við köllum á daglegu máli fjölpóst, þ.e. tölvupóstssendingar sem látnar eru ganga manna á milli og menn vinsamlegast beðnir um að áframsenda þær á tiltekið netfang. Það hafa sem sagt borist fjölpóstsendingar til Alþingis frá stuðningsmönnum niðurstöðu stjórnlagaráðsins og samkvæmt því sem segir í nefndaráliti meiri hlutans lýstu eitthvað í kringum 200 manns sérstökum stuðningi við niðurstöðu stjórnlagaráðs. Ég veit ekki hvort það getur talist mikið eða lítið en við vitum að á sínum tíma sýndu einungis um 30% kosningarbærra manna kosningu til stjórnlagaþings áhuga. Þess er hins vegar ekki getið, tek ég eftir, í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að helstu fræðimenn okkar hafa líka komið á fund nefndarinnar og tjáð skoðun sína. Skoðun þeirra hefur samkvæmt upplýsingum mínum verið sú almennt að þetta væri svo sem ágætisvinna en gæti ekki orðið annað en innlegg eða grunnur til að vinna áfram með.

Það er ekkert talað um þá skoðun færustu fræðimanna okkar. Nei, hugmyndin um stjórnlagaráð er svo mikilvæg að hún verður að fá frekari framgang og tillögur hennar verða að fá frekari úrvinnslu og hér ræðum við með hvaða hætti meiri hluti nefndarinnar kýs að láta það raungerast á komandi mánuðum. Í þeirri umræðu verður að sjálfsögðu ekki hægt að líta fram hjá því sem gerðist rétt fyrir áramótin þegar ríkisstjórnin óttaðist að hún hefði ekki lengur meirihlutastuðning á þinginu og leitaði til Hreyfingarinnar um mögulegan stuðning. Þar vísa ég til ummæla sem þingmenn Hreyfingarinnar hafa látið hafa eftir sér um að það hafi beinlínis verið á þeim forsendum sem viðræður við Hreyfinguna hafi farið fram. Eftir að þeim viðræðum lauk virtist færast ró yfir hæstv. forustu ríkisstjórnarinnar, Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur, að minnsta kosti treystu þau sér til að gera breytingar á ríkisstjórninni og fækka um tvo ráðherra án þess að hafa af því of miklar áhyggjur, væntanlega vegna þess að þau hafa þá haft í hendi sér loforð um stuðning frá þingmönnum Hreyfingarinnar, yfirlýsingu um að Hreyfingin mundi verja ríkisstjórnina vantrausti ef á reyndi. En gegn því hefur forusta ríkisstjórnarinnar lofað því að þetta mál fengi framgang vegna þess að 1. flutningsmaður málsins sem við ræðum nú var hv. þm. Þór Saari, það var borið uppi af hv. þingmönnum Hreyfingarinnar.

Ég vil láta þess getið í þessari umræðu að Sjálfstæðisflokkurinn hefur kallað eftir því allt frá vormánuðum ársins 2009 að fullt samráð allra flokka færi fram um þörfina fyrir breytingar á stjórnarskránni og efnislega um einstakar breytingarhugmyndir. Við því hefur aldrei verið orðið. Það byrjaði á því að á vormánuðum 2009 tefldu stjórnarflokkarnir, sem þá nutu stuðnings Framsóknarflokksins, fram sínum eigin hugmyndum að breytingum á stjórnarskránni án að svo mikið sem ræða við Sjálfstæðisflokkinn. Það var þá í fyrsta skipti í lýðveldissögunni sem ríkisstjórn tefldi fram breytingartillögum á stjórnarskrána án þess að nokkurt einasta samráð eða samtal hefði átt sér stað við aðra flokka. Það var forsmekkurinn að því sem síðar kom. Þær hugmyndir sem ríkisstjórnarflokkarnir tefldu fram með stuðningi Framsóknarflokksins á vorþinginu 2009 náðu ekki fram að ganga, eftir langar umræður í þinginu dagaði þær tillögur uppi en síðan tók við hugmyndin um ráðgefandi stjórnlagaþing. Það endaði með hæstaréttardómi um ógildingu kosningarinnar. Þá var farið út í það að kjósa ráðið sérstaklega og í millitíðinni hafa liðið þrjú heil ár. Þrjú heil ár hafa farið forgörðum bara við að efna til samstöðu um að gera breytingar á stjórnarskránni.

Þetta er allt með þvílíkum ólíkindum, frú forseti, verklagið og firringin sem virðist vera hér til staðar að maður stendur hálforðlaus frammi fyrir þessu rugli. Maður stendur hreinlega frammi fyrir því að meiri hluti þingsins virðist ætla að leggja fyrir þjóðina drög að nýrri stjórnarskrá sem koma frá nefnd sem meiri hlutinn einn kaus. Það á að fara með drög að nýrri stjórnarskrá fyrir þjóðina, drög sem færustu sérfræðingar okkar hafa sagt að séu algerlega ófullburða og ekki tæk í þjóðaratkvæðagreiðslu og það sem meira er, það ætlar enginn að taka ábyrgð á niðurstöðunni. Ef kosning fer þannig að lítill stuðningur er við hugmyndir stjórnlagaráðsins þá skiptir það engu máli. Ef mikill stuðningur er við niðurstöðu stjórnlagaráðsins liggur ekki heldur fyrir hvaða þýðingu það hefur. Jú, sagt er að það verði ráðgefandi og svo ætlar þessi sami meiri hluti að taka nokkrar vikur í kjölfar atkvæðagreiðslunnar og smella saman nýrri stjórnarskrá eða frumvarpi að nýrri stjórnarskrá á nokkrum vikum vegna þess að okkur er kynnt að nýtt frumvarp til stjórnarskrár komi fram á haustmánuðum. Lagastofnun Háskóla Íslands, sem fengin hefur verið til ráðgjafar í þessum málum, hefur tjáð stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að ef vel ætti að vera þyrfti hún um það bil eitt ár til að undirbúa vandlega frumvarp að nýrri stjórnarskrá. (Gripið fram í: Við verðum nú ekki lengi að því þegar við getum það.) En stjórnarmeirihlutinn, ásamt með stuðningi frá Hreyfingunni og nokkrum öðrum þingmönnum, munu hrista það fram úr erminni eftir þjóðaratkvæði í sumar á nokkrum dögum ef plön um þetta efni ganga eftir.

Ég verð að segja að allt þetta verklag, allur þessi aðdragandi að því að við ræðum þetta í dag er til skammar. Þetta er til skammar fyrir þá sem að þessu standa. Það er til skammar fyrir ríkisstjórnina og það er til skammar fyrir meiri hlutann á þinginu. Allt ferlið er fullkomin niðurlæging fyrir Alþingi, hvernig haldið er á þessu mikilvæga máli, stjórnarskránni sjálfri, grundvallarlögunum í landinu, hvernig niðurstaða Hæstaréttar hefur verið hunsuð. Það er til háborinnar skammar og þeir ættu að skammast sín sem tefla málinu fram með þessum hætti. Þess er ekki að vænta að tillögum sem spretta úr þeim jarðvegi, þeim glundroða sem við horfum upp á, verði vel tekið af þjóðinni þegar sjálf grundvallarlögin, stjórnarskráin, eru undir.

Ég lét þau orð falla þegar atkvæði voru greidd um kosningu stjórnlagaráðs á sínum tíma að ég bæri þá von í brjósti að eitthvað jákvætt kæmi út úr því starfi þótt ég væri ósammála aðferðafræðinni og með því hugarfari tók ég við tillögum stjórnlagaráðs í þinginu. Ég tók tillögunum með jákvæðu hugarfari og hugsaði með mér: Gott og vel. Þetta er innlegg. Hér býr mikil vinna að baki. Þetta er mikilvægt innlegg inn í umræðuna um breytingar á stjórnarskránni og mörgu af því er ég mjög ósammála, en þetta er innlegg, það er ekki hægt að horfa fram hjá því. Að baki liggur mikil vinna sem bera á virðingu fyrir. En í huga mínum var hins vegar alveg kristaltært að þetta væri ekki meira en innlegg í umræðuna. Nú hafa menn kosið að gera þetta að hinum heilaga sannleik, að hinni miklu leiðsögn um hvernig standa skuli að frekari breytingum á stjórnarskránni. Nú vill stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að tillögur stjórnlagaráðs verði leiðsögn um það hvernig stjórnarskránni skuli breytt. Góð ráð okkar færustu sérfræðinga eru algerlega hunsuð, ábendingar um að málið gangi ekki upp eru allar saman hunsaðar og enginn ætlar að taka ábyrgð á neinu.

Ég vek athygli á því að enn hefur engin einasta umræða farið fram á þinginu um stjórnarskrána sjálfa og hinar efnislegu breytingar sem menn kalla eftir. Ekki hefur farið einn dagur í það á þeim þremur árum frá því að kosningar fóru fram árið 2009. En að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána er alveg sjálfsagt, segja menn. Bara að skella sér í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sleppum umræðunum um stjórnarskrána, fáum hana bara frá meirihlutanefnd Alþingis þar sem ekki allir flokkar eiga fulltrúa, fyrstu nefndinni í sögu Alþingis sem kosin er með þeim smánarlega hætti, og skellum þessu bara í þjóðaratkvæðagreiðslu og sjáum svo hvað verður. Það er til skammar.