140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[18:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að spara mér það að reiðast, en tóku menn eftir því að hv. þingmaður hóf mál sitt á því að segja að sá ráðherra sem hér stendur ætti létt með að halla réttu máli? Er það reynsla hv. þingmanns að ég gangi hér ljúgandi að honum dag hvern eða einhvern tíma? (Gripið fram í.) Þetta var það sem hv. þingmaður sagði einfaldlega. (Gripið fram í.) Ef formaður Sjálfstæðisflokksins er sokkinn í þá djúpu pytti að geta ekki svarað ráðherra ríkisstjórnarinnar eða samstarfsbróður sínum úr öðrum flokki með öðru en því, svo ég segi það eins og af skepnunni kom, að hann ljúgi (BjarnB: Það varst þú sem varst að …) þá ætti hann bara að spara sér að halda ræður á Alþingi Íslendinga.

Frú forseti. Við skulum bara segja hlutina eins og þeir eru. Það er einfaldlega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn má ekki til þess vita að þessari stjórnarskrá verði breytt með þeim hætti sem fyrir liggur vegna þess að þar er að finna atriði og ákvæði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt sitt líf barist gegn. Það er einfaldlega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslur. Hann er á móti þeim og hann vill ekki slík ákvæði inn í stjórnarskrána. Sjálfstæðisflokkurinn sem alltaf hefur barist fyrir sérhagsmunum, ekki síst þeirra sem er að finna innan sjávarútvegsins, er á móti því að í stjórnarskrána sé tekið upp auðlindaákvæði. Það er málið. Það er þess vegna sem hv. þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins lítillækkar sjálfan sig með orðbragði af þessu tagi. Hann er að grípa til varna fyrir sérhagsmunina og ekki í fyrsta skipti. Við skulum bara horfast í augu við það. Það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að búa sig undir hér er langvarandi málþóf í þágu sérhagsmuna. Það er það sem veldur því að formaður Sjálfstæðisflokksins talar með þessum hætti og leyfir sér að segja, þegar menn vilja eiga við hann orðastað, að þeir eigi létt með að halla réttu máli. Kann hv. þingmaður ekki að skammast sín?

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að stilla orð sín.) (Gripið fram í: Og ráðherra.)