140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[18:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ekki eru spöruð stóru orðin um þetta ferli til breytingar á stjórnarskrá. Það er til dæmis kallað vandræðalegt og varð lokaorð hv. þm. Péturs Blöndals í ræðu hans áðan. Það er kannski ekki stærsta orðið sem notað hefur verið, ferlið hefur verið kallað ótækt og þar fram eftir götunum, væri til vitnis um ótæk vinnubrögð og allt það. Mér finnst það alls ekki.

Mér finnst allt þetta ferli vera til vitnis um mjög falleg, heiðarleg, nútímaleg og flott vinnubrögð. Mér fannst vera ákall um slík vinnubrögð í kjölfar hrunsins, ekki bara í kjölfar hrunsins heldur líka í raun og veru allan lýðveldistímann vegna þess að Íslendingar hafa aldrei sett sér eigin stjórnarskrá. Hún hefur ekki verið skrifuð beinlínis af íslensku þjóðinni og það hefur verið á margan hátt bagalegt. Það hefur meðal annars leitt til þess að allan lýðveldistímann höfum við haft mjög óskýra umgjörð í kringum auðlindanýtingu á Íslandi. Vaðið hefur verið áfram í íslensku samfélagi um áratugi með jafnvel einhverja sérhagsmuni að leiðarljósi þegar kemur að því að nýta auðlindir og ýmis nýting auðlinda á Íslandi fer fram í mjög óljósum ramma, meðal annars vegna þess að það hefur ekki verið skýrt í stjórnarskrá. Menn skulu ekki halda að raddir um að skýra þetta í stjórnarskrá hafi bara kviknað eftir að Ísland hrundi efnahagslega. Til dæmis var gríðarleg deila í þessum sal árið 2006 um auðlindaákvæðið í stjórnarskrá þar sem á tókust hefðbundin öfl í þessum efnum.

Ákall um að stjórnarskráin skýri rammann um auðlindanýtingu á sér áratugalangar rætur í íslensku samfélagi. Lengi hefur verið ákall um að stjórnarskráin sé framsæknari í mannréttindamálum og gert var átak í því 1995–1996. En mjög athyglisvert er að stjórnlagaráð og þjóðfundur gerðu það líka að miklu umtalsefni að stíga þyrfti stór skref í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Og þrátt fyrir að endurskoðun hafi farið fram á vegum Alþingis sýnir þessi vinna að þörf er á stórum skrefum.

Það hefur líka verið þörf á því allan lýðveldistímann að skýra betur mörkin milli valdastofnana á Íslandi, milli þingsins og framkvæmdarvaldsins, milli framkvæmdarvalds og forseta. Það hefur alltaf verið óljóst. Og það var eitt sem menn töluðu um í eftirleik hrunsins að samfélagið hefði í aðdraganda hrunsins borið þess mjög merki að mörkin milli framkvæmdarvalds og þings væru ekki skýr.

Eitt af því sem ég er ánægðastur með í tillögunni að nýrri stjórnarskrá er þessi skýrleiki sem mér finnst vera gegnumgangandi í skjalinu, að aukin áhersla er á þingræði, t.d. á kostnað valda forsetans. Þetta sjá menn kannski ekki strax, til dæmis hélt forseti Íslands öðru fram í þessum ræðustól og mér finnst hann einfaldlega hafa rangt fyrir sér. Mér finnst það vera rauður þráður og ágætlega útskýrt hjá stjórnlagaráði að mörkin verði skýrari. Meiri áhersla er lögð á þingræðið í þeirri stjórnarskrá sem gerð er tillaga um og eins eru valdmörkin milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds miklu skýrari.

Það sem ég er að reyna að draga fram í þessu er — stundum er sagt í umræðunni að hrunið hafi ekki orðið út af stjórnarskránni og gefið er í skyn að við séum að breyta stjórnarskránni bara einhvern veginn út af efnahagshruninu, hruni þriggja banka og svoleiðis, en það er ekki þannig. Sú krafa um að skrifa okkur stjórnarskrá hefur verið mjög rík allan lýðveldistímann og þessari stofnun hér hefur ekki tekist það þrátt fyrir margar tilraunir. Stjórnlaganefndir hafa starfað í áratugi en litlu skilað þannig að við þurfum líka að setja þetta í það samhengi. Hugmyndin að stjórnlagaþingi sem kviknaði meðal þáverandi þingmanna Framsóknarflokksins var sett fram fyrir hrun og þar af leiðandi ekki í neinu samhengi við það heldur í samhengi við auðlindamál eins og ég nefndi áðan. Þetta er því langur aðdragandi. Við skulum sleppa því að halda því fram, þeir sem halda því fram, að verið sé að gera þetta í einhverri panik út af efnahagshruni.

Annað sem er verið að reyna að halda fram, heyrist mér, í þessari umræðu er að þingið sé að afsala sér einhverjum völdum, að einhverjir aðrir en þingið séu að semja stjórnarskrána, eða fari sem sagt með valdið til að búa til stjórnarskrá. Það er ekki þannig. Því er oft haldið fram í tengslum við mörg mál í þinginu að mönnum er gert það upp að vera að afsala völdum frá þinginu. Við þurfum kannski að minna okkur á það á hverjum degi að löggjafarsamkoman á Íslandi, þingið, hefur öll völd og í þessu máli líka. Það er aðeins þingið sem getur breytt stjórnarskránni og þess vegna verður þjóðaratkvæðagreiðslan sem við ætlum að fara í að vera ráðgefandi. Við hefðum þurft að breyta stjórnarskránni fyrst og það hefði kannski verið skynsamlegt, ég veit það ekki, en alla vega hefðum við þurft að gera það til að fara í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hefur alltaf legið fyrir. Við þurfum að minna okkur á hver völd þingsins eru. Við getum þess vegna ákveðið á morgun með þingsályktunartillögu að hætta þessu. Við getum líka sett lög um að Sigurður Líndal eigi að semja nýja stjórnarskrá. Við getum gert það annað kvöld þess vegna, ef meiri hluti væri fyrir því.

Í slíku umhverfi þar sem þingið ræður vissulega öllu er mjög mikilvægt að þeir sem vilja gera þetta öðruvísi segi það þá hvernig þeir vilji gera það, komi þá fram með tillögu um það. Vilja þeir ekki breyta stjórnarskránni? Eða ef menn vilja breyta henni hægt og rólega á 50–100 árum, þeir komi þá með tillögu um það og við sæjum hana. Þingið ræður öllu í þessu.

Nú ætla ég aðeins að rifja upp ferlið. Þó svo að þingið ráði öllu þessu í sjálfu sér, stjórnarskráin kveður á um það, var samt sem áður ákveðið að koma með tillögu vegna þess einmitt hve þinginu hefur gengið brösuglega að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá þrátt fyrir að þörfin hafi verið æpandi allan lýðveldistímann. Sú tillaga byrjaði að formast í hugum þingmanna löngu fyrir hrun, þ.e. að fara í samtal við þjóðina um þetta mál og gera eins og margar aðrar þjóðir hafa gert, efna til stjórnlagaþings. Þá var fyrsta skrefið náttúrlega stigið í þessum þingsal vegna þess að þingið ræður öllu í þessu, og efnt var til þjóðfundar. Íslendingar voru kallaðir til fundar í Laugardalshöll og komu sér saman um, á mjög vel heppnuðum fundi, ákveðin grunngildi. Þau gildi, niðurstaða fundarins, voru tekin í mjög ítarlega vinnu í sjö manna stjórnlaganefnd sem var skipuð hér og hún skilaði niðurstöðu í tveimur bindum Svo var kosið til stjórnlagaþings, ríflega 80 þús. Íslendingar tóku þátt í því, og það varð að stjórnlagaráði eftir atburðarás sem við þekkjum. Hérna eru komin þrjú skref, allt ákveðið af þinginu.

Fjórða skrefið fólst síðan í vinnu stjórnlagaráðs sem fór fram um nokkurra mánaða skeið. Kallaðir voru til fjölmargir umsagnaraðilar og almenningur fékk mjög ríka aðkomu að þeirri vinnu, eins og er ágætlega rakið í greinargerð tillögu stjórnlagaráðs.

Fimmta skrefið. Þegar tillaga stjórnlagaráðs var tilbúin kom hún hingað til meðferðar þingsins vegna þess að þingið ræður þessu á endanum. Það var sem sagt ákveðið. Og ég er ánægður með að ekki er farið með málið aftur á byrjunarreit heldur er reynt að einbeita sér að því að halda þessu ferli til streitu, þessu samráðsferli við þjóðina. Ég er mjög ánægður með það. Mér virðist vera meiri hluti fyrir því í þinginu — sú tillaga sem við ræðum núna ber vitni um það og ég vona að hún verði samþykkt — að við ætlum að reyna að halda okkur við efnið í þessu. Því það er svo rosalega mikil freisting og greinilega mjög margir sem tala fyrir því og eru á þeim buxunum að fara með þetta allt á byrjunarreit og byrja að ræða aftur grundvallaratriðin í málinu. En nú liggur tillagan fyrir.

Það er alveg rétt sem kom fram til dæmis í máli hv. þm. Péturs Blöndals áðan að það er ýmislegt í tillögunni sem þarf að skoða og ræða. En hvað ætlum við einmitt að gera núna samkvæmt þeirri tillögu sem hér er fyrirliggjandi og við ræðum í dag? Við ætlum að fara í samtal við stjórnlagaráð aftur. Við ætlum að kalla stjórnlagaráð saman aftur vegna þess að það vann tillögurnar. Alþingi fól stjórnlagaráði að vinna þessar tillögur og við ætlum að spyrja stjórnlagaráð afmarkaðra spurninga. Svo kemur eitthvað út úr því. — Ég er í sjötta skrefi af ellefu, bara rétt til að minna þingheim og þjóðina á að við erum í miðjum klíðum. Þetta er tekið skref fyrir skref.

Það kemur síðan eitthvað út úr þessu sjötta skrefi, stjórnlagaráðið kemur saman. Það sér kannski að ýmislegt þarf að snurfusa, breyta eða bæta, skýra, stemma af og út úr því kemur vonandi enn betri tillaga. Hún kemur aftur fyrir þingið og við ákveðum hér hvernig við förum í þjóðaratkvæðagreiðsluna, hvaða spurningar verða lagðar fram o.s.frv. Það er umræða sem við munum þá taka hér, þ.e. um sérstakt frumvarp sem verður lagt fram um það. Mikilvægt er að halda því til haga að þetta er ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, það hefur alltaf legið fyrir að hún yrði að vera það.

Ég er mjög fylgjandi því að þjóðin verði einfaldlega spurð um afstöðu sína til stjórnarskrártillögunnar í heild sinni og síðan afmarkaðra spurninga um ýmsa mikilvæga þætti hennar. Það væri sjöunda skrefið, gríðarlega mikilvægt skref þar sem stjórnlagaráðsfulltrúar mundu kynna og rökstyðja tillögur sínar og samræða færi fram í þjóðfélaginu um stjórnarskrána og þjóðin mundi einfaldlega taka afstöðu til fyrirliggjandi tillögu.

Síðan er áttunda skrefið sem gert er ráð fyrir að fari fram, það er áframhaldandi vinna Alþingis. Alþingi tekur þá tillöguna eftir að þjóðin hefur sagt afstöðu sína til hennar og ef þjóðin er mjög afgerandi í afstöðu sinni hlýtur það að hafa mikil áhrif á vinnu okkar hér vegna þess að við sitjum í umboði þjóðarinnar. En eftir sem áður — þetta er stjórnarskráin og við verðum einmitt að fara varlega og verðum að vanda okkur — er gert ráð fyrir að heilt þing fari í það að vinna úr þeim niðurstöðum. Hægt væri þá að efna til enn frekara samráðs við Lagastofnun og fleiri en samráðið við þjóðina mun þá hafa farið fram um sumarið.

Síðan kemur níunda skrefið, þetta er ekki einu sinni búið þarna. Í níunda skrefinu — vonandi berum við gæfu til þess í áttunda skrefinu að bera virðingu fyrir niðurstöðu þjóðarinnar — greiðum við, þingið, atkvæði um breytta stjórnarskrá. Samkvæmt stjórnarskránni verður sú atkvæðagreiðsla að fara fram. Ef við ætlum að breyta stjórnarskránni verðum við að samþykkja það hér, og það verður rétt fyrir alþingiskosningar. Svo verða alþingiskosningar og þá mun þjóðin aftur hafa aðkomu af málinu. Ef stjórnarskráin verður felld í atkvæðagreiðslu þá getur þjóðin lýst andúð sinni á þeim þingmönnum sem greiddu atkvæði gegn henni eða öfugt. Þjóðin mun hafa aðkomu að málinu aftur í gegnum hefðbundnar alþingiskosningar.

Svo kemur ellefta skrefið, þetta er ekki búið. Í ellefta skrefi kemur nýtt þing saman og samkvæmt núgildandi stjórnarskrá verður nýtt þing að samþykkja stjórnarskrána líka. Þá fer fram enn ein umræða með nýjum þingmönnum og að öllum líkindum nýjum flokkum.

Af hverju er þessi æsingur núna? Af hverju höldum við okkur ekki bara við efnið? Af hverju tökum við þetta ekki skref fyrir skref, slökum aðeins á? Það er enginn æðibunugangur í þessu. Þetta er nokkuð vel hannað ferli og mjög yfirgripsmikið með það að leiðarljósi að leita álits þjóðarinnar. Það er grunnþemað í þessu ferli öllu saman að hafa sem ríkasta aðkomu þjóðarinnar að búa til þetta grundvallarplagg.

Mér reiknast svo til að þetta séu um ellefu skref og við erum núna í miðjum klíðum. En það verður erfitt. Þau fimm skref sem við höfum tekið sýna að það er barátta í gangi og mér finnst ég greina mjög ríka viðleitni til að reyna að stoppa ferlið. Ég met það svo að það sé bara hefðbundin barátta sem hefur farið fram meira og minna allan lýðveldistímann. Mér finnst einhvern veginn eins og það hafi verið sumum í hag í þjóðfélaginu að hafa til dæmis frekar óskýr auðlindaákvæði, og það kunni að vera þeim sérhagsmunum mjög í óhag að við förum að skýra þau auðlindaákvæði sérstaklega í stjórnarskrá. Ég tek slíka baráttu sem dæmi um að andstaða er nú sem fyrr mjög ríkuleg við það að við förum að breyta stjórnarskránni.

Ég vil aðeins fara yfir það líka hvað það er sem þjóðin í raun og veru er að taka afstöðu til. Ég sagði áðan að mér fyndist skynsamlegt að þjóðin tæki afstöðu, alla vega í einni spurningunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni, til stjórnarskrárinnar í heild sinni. Þá finnst mér mikilvægt og eins í umræðunni hér að við tölum í þessum valkostum. Við erum með stjórnarskrá núna og spurningin sem þjóðin þarf að upplifa er: Er tillagan frá stjórnlagaráði betri? Við megum ekki nálgast þetta þannig að spyrja þjóðina: Er þessi tillaga fullkomin? Ég teldi að það væri óréttlátt gagnvart þeirri vinnu, vegna þess að ég held að það séu tómir draumórar að ætla sér að skrifa, jafnvel þó það yrði gert á nokkrum árum, fullkomna stjórnarskrá. Stjórnarskráin er ekki óbreytanlegt plagg. En spurningin sem þjóðin þarf að upplifa og við líka hér þegar við greiðum atkvæði um stjórnarskrána á endanum í skrefi níu er: Er sú stjórnarskrá sem við munum þá hafa í höndunum betri en sú sem við höfum núna?

Það má líka orða spurninguna aðeins öðruvísi. Hvað ef við hefðum enga stjórnarskrá, værum stjórnarskrárlaus? Þá mætti spyrja: Hvor tillagan að nýrri stjórnarskrá væri þá betri, þessi sem er núna eða tillaga stjórnlagaráðs? Tillaga stjórnlagaráðs er komin fram, hún verður alltaf mæld til móts við þá sem við höfum. Ég held að mjög hollt væri í þeim skrefum sem eftir eru að minna sig á þetta.

Ef menn telja eitthvað óskýrt um forsetann í tillögum stjórnlagaráðs þá verð ég að segja að núgildandi stjórnarskrá er vægast sagt ekki mjög skýr um forsetann. Við verðum að bera þetta saman. Og ef við teljum eitthvað um auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar eða stjórnarskrártillögunnar þá skulum við líka bera það saman við ekkert auðlindaákvæði í þeirri stjórnarskrá sem við búum við.

Við verðum að bera þetta allt saman, með öðrum orðum, tillagan er komin fram, þjóðin verður einfaldlega að fá tækifæri til þess að bera saman, og það var alltaf hugsunin í þessu ferli að rík aðkoma þjóðarinnar mundi vera í þessu og hún hefði eiginlega allt um þetta að segja. Hún verður einfaldlega að fá að svara: Er þessi fyrirliggjandi tillaga betri en stjórnarskráin sem við höfum núna? Svo getur vel verið að breyta þurfi einhverju í framhaldinu á komandi árum og áratugum, alveg örugglega ef nýja stjórnarskráin verður samþykkt, en þá er líka lykilspurning: Þarf að breyta minna í henni en þeirri sem við höfum núna?

Hvað er að því, hvað er svona vandræðalegt og hvað er svona alveg ótækt við það að þjóðin fái einfaldlega að svara þeirri spurningu næsta sumar?