140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[19:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Baráttan um Ísland er núna, sagði hv. þingmaður, og allir sem eru á móti mér eru andstæðingar þjóðarinnar. Þannig var ræðan í stuttu máli, hún var stutt. Hv. þingmaður sagði líka að um 300 umsagnir hefðu borist, langflestar jákvæðar. Fram kemur að rúmlega 200 umsagnir voru dreifibréf þar sem skorað var eindregið á nefndina að samþykkja málið sem allra fyrst og bara keyra það í gegn. Ég spyr hv. þingmann: Hefur nefndin rætt við einhvern af þessum umsagnaraðilum og spurt hann út í til dæmis Lögréttuna, hvort hlutverk hennar sé nægilega vítt, hvort skynsamlegt sé að leggja í þennan kostnað? Hefur nefndin spurt þetta fólk um ýmislegt í stjórnarskránni? Þar finnst mér ýmislegt vera athugavert þó að ég vilji undirstrika að ég tel margt mjög jákvætt í stjórnarskránni?

Svo vil ég spyrja hv. þingmann að því sem hér hefur komið fram, ég vil fá það á hreint: Hefur Hreyfingin fengið einhver loforð um að málið gangi hratt fyrir sig í þjóðaratkvæðagreiðslu o.s.frv. gegn því að styðja ríkisstjórnina? — Það má spyrja.