140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[19:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst lærdómsríkt að vita að margur heldur mig sig en ég átta mig ekki alveg á því hvað það hafði með það að gera sem ég spurði um. Ég vildi bara fá það fram hjá hv. þingmanni að ekki sé samband á milli þess að Hreyfingin styðji hugsanlega ríkisstjórnina og að þetta frumvarp fær skyndilega svona mikinn framgang, því að það var ekki í umræðunni áður.

Nú stefnir í það, ef frumvarpið verður samþykkt, að haldin verði kosning um tillögur stjórnlagaráðs, nánast hráar eins og þær eru samþykktar eftir fjögurra vikna vinnu. Þarna er ýmislegt sem ég hef fundið athugavert við, ég tek fram að ég styð margt af því sem fram hefur komið í þessum hugmyndum en það þyrfti að ræða þær miklu betur efnislega. Það hefur eiginlega engin efnisleg umræða átt sér stað um frumvarpið á Alþingi.

Segjum að málið eins og það er í dag fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þó að bent hafi verið á veikleika og annað slíkt í einstaka greinum verður málið bara lagt fyrir þjóðina. Þá er spurningin: Hvað gerist ef þjóðin hafnar því vegna þess að hún reki hornin í eitthvert eitt eða tvö ákvæði? Til dæmis gerir eitt ákvæðið ráð fyrir að mjög auðvelt sé að sækja um aðild að efnahags- og friðarsamböndum ríkja sem Evrópusambandið er. Það er fyrst og fremst stofnað um frið og í öðru lagi um efnahagssamvinnu. Þarna er komið ákvæði sem gerir það mjög auðvelt fyrir ríkisstjórnina, án atbeina Alþingis, án þjóðaratkvæðagreiðslu, að sækja um. Segjum að þjóðin uppgötvaði það ákvæði og yrði á móti allri þessari vinnu af þeirri ástæðu einni saman? Hvað gerist ef þessu verður hafnað? Er þá öll þessi vinna unnin til einskis, engin stjórnarskrá og ekki neitt?