140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og innlegg í þessa umræðu og tek undir með honum, stjórnarskrá verður ekki breytt nema með stuðningi sem flestra og að sem mest sátt ríki um hana. Þess vegna finnst mér mjög einkennilegt að málið skuli vera komið í þennan ósættisfarveg en ríkisstjórnin hefur nú sem endranær kosið ósátt í stað þess að leita sátta í svo mikilvægu máli.

Hér komu fram skemmtilegar hugleiðingar um þjóðareign. Hvað er þjóðareign? Hverjir eru það sem geta talið sig eiga eign hjá þjóðinni? Þetta er til dæmis eitt úrlausnarefnið sem stjórnlagaráð gat ekki komið sér saman um og er eitt stærsta úrlausnarefni stjórnskipunarvaldsins, sem eru 63 þingmenn með þingkosningum á milli og þá tekur nýtt þing til við að samþykkja nýja stjórnarskrá, að skilgreina hvað sé þjóðareign. Stjórnlagaráðið gat ekki fundið út úr því eða sett í skýrsluna hver skilningur þess væri á þjóðareign.

Þetta var útúrdúr því að spurningar mínar snúast um þetta: Hvað telur þingmaðurinn að prósentutalan í þátttökunni um hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi að vera há? Hefur 35% þátttaka meira gildi en 10% þátttaka? Við gætum hæglega staðið frammi fyrir því að gengið yrði til forsetakosninga þar sem væri jafnframt boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárdrög. Það yrði 80–85% þátttaka í forsetakjörinu en einungis 10% í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hvert er (Forseti hringir.) að mati þingmannsins ásættanlegt hlutfall í þjóðaratkvæðagreiðslunni, hversu hátt þarf það að vera til að eitthvað sé að marka úrslitin?