140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:19]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var ekki ætlan mín að lengja þessa umræðu en ástæða þess að ég tek til máls er aðeins sú að menn tala um að þjóðarsátt þurfi að vera um stjórnarskrá lýðveldisins. Ég er sammála því, og ekki ósammála því að svo geti vel verið í þessu máli, en mér finnst þetta svolítið kúnstugt í ljósi þess að gildandi stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, svona í öllum aðalatriðum, var rétt okkur af konungi Danmerkur með fjarska litlu samráði við íslenska þjóð. Það sama á við um flestar stjórnarskrár nema helst ef við vísum til Bandaríkja Norður-Ameríku. Það er athygli vert að úr því að ekki var farið í þessa þjóðarsáttarumleitan sé kannski kominn tími til að við gerum það. Það er einmitt það sem kallað hefur verið eftir í umræðunni um stjórnarskrána ansi lengi, og nefnt að hún sé gömul, kom hér 1874, síðan hafi hún meira og minna verið þýdd, það hafi verið óheppilegt og nauðsynlegt sé að endurskoða hana.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann út í eitt atriði vegna þess að mér finnst að þingmenn eigi að tala mjög skýrt. Í upphafi ræðu sinnar sagði hv. þm. Illugi Gunnarsson að þeir sem tækju sér orðin þjóð og þjóðarvilji í munn væru að temja sér orðfæri manna sem hann helst ekki vildi nefna. Ég ætla þess vegna að spyrja hann beint hvort hann eigi með því við að þeir sem geri það séu að temja sér tungutak þjóðernisofstækismanna, fasista og nasista, eða spyrja hreinlega við hvað þingmaðurinn átti.