140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:21]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það þarf ekkert að stafa þetta ofan í hv. þingmann. Hann getur bara giskað á það sjálfur. Ég ætla að benda hv. þingmanni á að þeir sem tala þannig að þeir séu sérstakir handhafar þjóðarviljans og lýsa því yfir í krafti þess að andstæðingar þeirra, þeir sem hafa andstæð sjónarmið, séu þar með handbendi einhverra annarlegra afla þrátt fyrir að þeir hafi verið kosnir til setu á þjóðþingi — ég á ekkert eitt svar við þessu en ég sagði að það væri ráðlegt fyrir þá sem tala þannig að skoða sögu nýliðinnar aldar og sjá hvort þeir geti fundið samsvörun, annaðhvort á fyrri hluta þeirrar aldar, um miðja öldina eða síðari hluta aldarinnar, með slíkum málflutningi. Ég er viss um að ef menn leita gaumgæfilega finna þeir slíkt.

Frú forseti. Hitt þótti mér miklu mikilvægara það sem hv. þingmaður sagði um eðli stjórnarskráa og hvaðan þær koma. Sú saga sem hv. þingmaður rakti um það hvernig stjórnarskráin kom til Íslands, er alveg hárrétt. Á það er þó að horfa að stjórnarskrár á Vesturlöndum urðu ekki til í einhvers konar tómarúmi. Þær urðu ekki til þannig að í hverju landi fyrir sig hafi orðið til alveg sérstök stjórnarskrá byggð á sérstökum gildum tengdum því landi. Að baki stjórnarskrám í ríkjum Vesturlanda og í Bandaríkjum Norður-Ameríku liggur ákveðin hugmyndafræði sem hefur þróast í langan tíma og endurspeglast í þeim stjórnarskrám. Þótt hún hafi síðan að forminu til komið frá konungi er ljóst að hún hefur ekki orðið til öðruvísi en með einmitt þeirri þróun sem ég lýsti hér, með hugmyndafræðilegri baráttu, stjórnmálabaráttu og jafnvel vopnaðri baráttu sem síðan leiddi til þeirra (Forseti hringir.) stjórnarskráa sem við Vesturlandabúar búum við og menn eiga ekki að umgangast þær af neinni léttúð.