140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi ummæli hv. þingmanns um þá skoðun mína að þeir sem tala með þeim hætti að þeir séu handhafar þjóðarvilja og pólitískir andstæðingar þeirra séu þá handbendi hagsmunaafla, þá var það þingmaðurinn en ekki ég sem benti á ákveðnar stjórnmálahreyfingar. Ég benti einungis á það að skynsamlegt væri að velta fyrir sér hvort menn fyndu einhvers staðar samsvörun með slíku, þ.e. að tala þannig að þeir séu handhafar þjóðarviljans og andstæðingar þeirra bara handbendi hagsmunaaðila. Það var hv. þingmaður sem setti þetta í samhengi við ákveðnar stjórnmálahreyfingar, kann að vera vegna þess að honum hafi fundist einhvers konar samhengi þar á milli. Það voru ekki mín orð.

Hvað varðar stjórnarskrárnar og stöðu þeirra og síðan þá spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín um hver mín afstaða yrði að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu með, eins og hv. þingmaður orðaði það, með leyfi forseta, „rífandi“ þátttöku, er afstaða mín þessi: Núverandi stjórnarskrá sem ég og hv. þingmaður höfum skrifað undir eiðstaf að gerir þá kröfu til okkar að við í öllum málum fylgjum sannfæringu okkar og greiðum atkvæði í samræmi við hana. Það má því vera hv. þingmanni ljóst að fjöldi þeirra sem tekur þátt í slíkri ráðgefandi atkvæðagreiðslu mun aldrei hafa ríkari áhrif en krafa stjórnarskrárinnar. Ég verð að segja að mér kemur spurning hv. þingmanns nokkuð á óvart.