140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:46]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég lít ekki svo á að þegar þingflokkur Framsóknarflokksins velur í nefndir séu fulltrúar valdir út frá einstaka málum. Við getum einungis verið í einni nefnd, hvert okkar, við höfum ákveðin áhugasvið og þá er reynt að einhverju leyti að taka tillit til þeirra.

Hins vegar höfum við öll auðvitað okkar skoðanir á umræddu máli, og eins og bersýnilega hefur komið í ljós í þessari umræðu er mjög langt á milli þeirra. Ég vil samþykkja málið, því fyrr því betra, og mun tala fyrir því en aðrir verða að útskýra sína afstöðu.

Ég hef reynt að endurspegla forsögu Framsóknarflokksins og það sem ég þekki til í því máli og sú forsaga er algjörlega skýr. Við vildum bindandi stjórnlagaþing, féllumst að lokum á ráðgefandi stjórnlagaráð vegna þess að okkar mál var drepið hér í málþófi, því miður. Síðan hafa leiðir skilið svolítið í því og við höfum reynt að færa fram rök fyrir skoðunum okkar í okkar hópi.

Ég vil klára þetta mál og ég tel að ákveðinn hluti Framsóknarflokksins vilji gera það með þeirri aðferðafræði sem ég hef fært rök fyrir og tel að það sé í anda þeirrar forsögu sem ég hef reynt að lýsa. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur að ég er stolt af þeirri forsögu. Mér finnst að það hafi verið mjög flott og framsýnt hjá Framsóknarflokknum að taka á málinu og færa hingað inn tillögu um bindandi stjórnlagaþing, þó að það hafi ekki orðið reyndin.