140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:54]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að Framsóknarflokkurinn og sú er hér stendur vildu á sínum tíma, og ég vil það enn, að þjóðin hefði komið meira að þessu. Það hefðum við getað gert ef við hefðum verið með bindandi stjórnlagaþing. Þá hefði þjóðin komið miklu sterkar að þessu. En við gerðum þó það sem var næstskásti kosturinn og það var að fara í þetta ráðgefandi stjórnlagaráð. Það voru 84 þús. manns sem kusu til þess, (Gripið fram í: Einn þriðji.) þannig að þjóðin kom svo sannarlega að því. Þó að það væri ekki hver einasti maður voru það alla vega miklu fleiri en 63 alþingismenn með einhverja örfáa sérfræðinga sér til leiðbeiningar, miklu, miklu stærri hluti þjóðarinnar.

Það er því verið að reyna að nálgast það eins og kostur er að hafa þjóðina með í ráðum, og hvað þá ef okkur tekst nú að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ég tel vera betri kost en skoðanakönnun. Ég tel að þjóðaratkvæðagreiðsla vegi þyngra, þó að hún sé ráðgefandi vegur hún samt þyngra en skoðanakönnun. Skoðanakönnun er þá næstskásti kosturinn úr því sem komið er ef okkur tekst ekki að koma þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar.

Miðað við stöðuna er þetta því það skásta sem hægt er að gera að mínu mati, þ.e. að fara með þessi álitamál í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar, klára svo málið hér (Gripið fram í.) á næsta þingi og vonast til þess að okkur takist það og við þurfum ekki að upplifa að dragbítarnir stoppi þetta. (Gripið fram í: Alþingi ákveður.)

Af því að hv. þm. Pétur Blöndal spurði í hvorn hópinn ég flokkaði hv. þingmann, þá er það svolítið erfitt að vissu leyti af því að hv. þingmaður hefur ekki alltaf lotið svokölluðum flokksaga í eigin flokki. En hv. þingmaður er í flokki sem ég skilgreini þannig að hann hefur verið mjög hægfara (Gripið fram í.) varðandi breytingar á stjórnarskrá. Hv. þingmaður er alla vega í þeim stjórnmálaflokki þó að hann lúti ekki alltaf alveg öllum (Forseti hringir.) leiðbeiningum þaðan.