140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[21:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Nú nýverið féll enn einn dómurinn í Hæstarétti sem sýndi fram á hversu vanhugsuð og klúðursleg vinnubrögð hafa verið viðhöfð af hálfu stjórnarmeirihlutans í þinginu við lagasetningu. Hvað eftir annað hafa menn á undanförnum árum sett lög í flýti eða fyrst og fremst verið með hugann við pólitísk markmið og verið svo staðnir að því að lögin standast ekki nánari skoðun. Undanfarin ár hefur hér verið ríkjandi fúsk við lagasetningu og því miður hefur ástandið hvað það varðar ekki farið batnandi, þvert á móti hefur það eiginlega versnað. Líklega er það vegna þess að nú styttist óðum kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar, kapp verður meira en forsjá í lagasetningu og menn fara að gera enn fleiri mistök en áður. Það er algjörlega óásættanlegt í þinginu að lagasetning sé unnin með þeim hætti sem viðhafður hefur verið, að þingið sé hvað eftir annað staðið að því að setja lög sem ekki standast fyrir dómstólum.

Nú síðast voru sett lög sem ekki stóðust stjórnarskrá. Menn voru gerðir afturreka með lög vegna þess að þau stóðust ekki stjórnarskrána. En nú virðast menn vilja viðhafa sams konar vinnubrögð við breytingar á stjórnarskránni sjálfri og ráðast í breytingar á henni í miklum flýti. Menn viðurkenna það raunar margir hverjir sem eru stuðningsmenn þessa máls að tíminn sé naumur, kannski of naumur, en samt á að keyra það áfram í flýti þrátt fyrir að á því séu margir gallar samkvæmt þeim mörgu álitum sem fram hafa komið í nefndinni við meðferð þessa máls. Ábendingar um galla eru svo margar að ekki hefur verið svigrúm til að fara yfir þær í þinginu og ráða bót á þeim. Samt á að keyra málið áfram, menn keyra það vísvitandi í gegn á allt of skömmum tíma. Þetta mál er stórgallað og ekki hvaða mál sem er, heldur mál sem varðar breytingar á sjálfri stjórnarskránni.

Eðli málsins samkvæmt verða menn að fara varlega við breytingar á stjórnarskrá, hafa vaðið fyrir neðan sig og vita svona nokkurn veginn hverjar afleiðingarnar verða af þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru við breytingarnar. Það vantar mikið upp á það hér.

Það sem er kannski enn þá stærra áhyggjuefni er það viðhorf sem birst hefur í umræðunni nú og raunar áður í umræðum um stjórnarskrána og er tiltölulega nýtt, held ég að mér sé óhætt að segja, að nú eigi að nota tækifærið og búa til stjórnarskrá sem hentar pólitískum sjónarmiðum einungis hluta landsmanna, hugsanlega minni hluta landsmanna. Það er mjög hættuleg hugsun. Stjórnarskrá hefur verið annars eðlis en almenn lagasetning að því leyti að hún útlistar það sem við Íslendingar erum almennt sammála um að eigi að vera grundvallargildi og reglur þjóðarinnar. Ef menn ætla nú að breyta því og fara að setja stjórnarskrá sem innleiðir til að mynda vinstri stefnu, því að áhersla á pólitíska vinstri stefnu hefur verið mjög áberandi í umræðunni, erum við komin inn á hættulegar brautir. Hvað gerist þá ef Sjálfstæðisflokkurinn nær aftur völdum? Segjum sem svo að Samfylkingin fari aftur í frjálshyggjuham þegar það kemst næst í tísku og styðji Sjálfstæðisflokkinn við myndum mikillar hægri stjórnar? Á sú ríkisstjórn þá að nota tækifærið og umpóla stjórnarskránni, gjörbreyta henni, gera hana að hægri sinnaðri frjálshyggjustjórnarskrá? Verið er að gefa þau skilaboð með umræðum sem hér fara fram að hver ríkisstjórn eigi að nota tækifærið og breyta stjórnarskránni í samræmi við pólitíska hugsjón sína.

Sjálfstæðismenn hafa verið sakaðir um að vera sérstaklega mikið á móti breytingum á stjórnarskránni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft og tíðum fengið hátt í 40% fylgi og stundum meira en það. Það er alveg ótrúleg staðreynd og það jafnsvekkjandi áratug eftir áratug hvað Sjálfstæðisflokkurinn nær miklu fylgi. Vonandi verður breyting þar á með tíð og tíma, vonandi er það að færast í rétta átt. En engu að síður hefur mjög stór hluti þjóðarinnar, oft í kringum 40%, stutt þann flokk. Við sem erum andsnúin Sjálfstæðisflokknum og stefnu hans verðum að sætta okkur við það. Við getum ekki notað tækifærið og reynt að líta fram hjá þessum 30 eða 40%, eða hvað það nú er, sem styðja Sjálfstæðisflokkinn, reyna jafnvel að gera þann hluta þjóðarinnar réttlausan eða sýn hans á tilveruna ómerka.

Stjórnarskrá má ekki vera pólitísk. Hún má ekki vera vinstri sinnuð eða hægri sinnuð, hún má kannski helst vera miðjusinnuð, en hún á ekki að eltast við tilteknar pólitískar stefnur til hægri eða vinstri. Hún á lýsa því sem við erum almennt sammála um. Svo setja menn lög sem verða að standast stjórnarskrána í samræmi við pólitíska stefnu hverrar ríkisstjórnar. Hins vegar þykir það til marks um réttarríkið og einn af kostum þess að það sé ákveðinn stöðugleiki í jafnvel hefðbundinni lagasetningu þannig að hefðbundnum lögum sé ekki umpólað þegar vinstri stjórn tekur við af hægri stjórn eða öfugt, sem sagt að það sé einhver samfella í lagasetningunni. Það á við jafnvel um venjuleg lög.

Hvað stjórnarskrána varðar er það sérstaklega mikilvægt vegna þess að hún á að lýsa því sem almennt er samstaða um. Annars er hættan sú að við færumst út í það sem reyndar hefur gerst í mörgum öðrum löndum í gegnum tíðina að ákveðinn hópur noti það ástand, oft og tíðum efnahagslegt neyðarástand eða óvissu, til að verða allsráðandi og útiloka aðra. Það er mjög ólýðræðislegt og er ekki stundum heldur alltaf — alltaf — rökstutt með því að það sé gert til að gæta almannahagsmuna. Menn birtast sem talsmenn fólksins, lýsa sjálfum sér fjálglega sem hinum sönnu talsmönnum fólksins á meðan þeir sem eru ósammála séu fulltrúar einhverra sérhagsmuna og gangi illt eitt til. Þess vegna er, eins og komið var inn á í umræðunni fyrr í kvöld, mjög óþægilegt að heyra fólk tala þannig að það líti á sig sem hina einu talsmenn fólksins, en að þeim sem hafa aðrar skoðanir eða vilja jafnvel bara vinna hlutina aðeins betur og af meiri skynsemi í ljósi reynslunnar, gangi eitthvað annarlegt til.

Í Ungverjalandi innleiddu menn undir forustu hins alræmda kommúnista Matthias Rakozi þar sem kallað var „salami-taktík“. Hún gekk út á það að eftir stríð er kommúnistar voru að ná völdum sögðu Rakozi og stuðningsmenn hans: Við hljótum nú öll að geta verið sammála um að við viljum ná þessari þjóð saman um almannahagsmuni og að hægri menn eru sérhagsmunaseggir, nokkurs konar fasistar, eins og allir aðrir en kommúnistar voru oft kallaðir í kommúnistaríkjunum, og að þeir eiga ekki að vera þátttakendur í að skipuleggja það þjóðfélag sem við viljum byggja upp í Ungverjalandi eftir stríð. Það hljóta allir að geta verið meira og minna sammála um að við getum ekki haft þá með sem eru lengst til hægri. Jú, meiri hlutinn gat fallist á þau rök. Þegar sú sneið hafi verið tekin af, sú sem var lengst til hægri, sögðu Matthias og félagar hans: Þeir sem eru núna lengst til hægri studdu þessa hægri menn á sínum tíma og eru svona hálf-fasískir. Getum við ekki verið sammála um að sú sneið þurfi að fara, að samfélagið verði betra ef það fólk er ekki að þvælast fyrir okkur? Jú, menn féllust á það. Svo kom að því að miðjumennirnir voru allt í einu orðnir lengst til hægri af þeim sem voru þátttakendur í stjórnmálum. Þá komu sömu rök: Eigum við ekki bara að losa okkur við þessa miðjumenn svo við getum haft hreina vinstri stefnu sem hugsar um hagsmuni almennings? Og miðjumennirnir fengu að fjúka. Ekkert var eftir nema hreinn kommúnismi, ein óhugnanlegasta kommúnistastjórn í öllum austantjaldsríkjunum.

Þótt margir vilji gjarnan losna við áhrif þeirra sem eru lengst til hægri í stjórnmálunum er það hættuleg þróun. Það er hættuleg þróun ef menn ætla að reyna að útiloka hægri stefnuna frá lagasetningu eða úr stjórnarskránni, reyna að gera stjórnarskrána að einhvers konar byltingarplaggi.

Stjórnarskráin má ekki vera pólitísk, svo ég ítreki það eina ferðina enn, hún má ekki vera hægri sinnuð eða vinstri sinnuð. Hún á að vera nokkurs konar akkeri sem kemur í veg fyrir að samfélagið sveiflist of langt til hægri eða of langt til vinstri. Því vekur það mér nokkurn ugg þegar menn sem tala eins og byltingarsinnar, vilja nota stjórnarskrána til að ná markmiðum fram sínum.

Eins og ég kom inn á í byrjun er það ekki til að auka á trúverðugleika málsins hvernig það er fram sett hér, því að þó að við mörg, hugsanlega allir þingmenn, alla vega meiri hluti, treysti ég mér til að fullyrða, teljum rétt að lagfæra stjórnarskrána og gera á henni breytingar er mjög mikilvægt að vandað sé til þess verks. En hér er komin fram tillaga sem þegar er fallin á tíma. Hér er talað um að ákveðnir hlutir skuli gerast ekki seinna en 1. nóvember 2011 og annað á að klárast 1. desember 2011, enn annað 1. febrúar 2012, til þess að allt verði klárt væntanlega fyrir forsetakosningar, svo sé hægt að afgreiða breytingar eða atkvæðagreiðslu um tillögur að breytingum á stjórnarskrá samhliða forsetakosningum.

Nú er náttúrlega augljóst að áætlanir ganga ekki eftir en samt ætla menn að halda sig við það að reyna að keyra þetta í gegn á einhverjum methraða þrátt fyrir að allar þær ábendingar sem ég nefndi hér í upphafi, sem borist hafa vegna þessara tillagna, hafi verið jafngagnrýnar og raun bar vitni.

Í tillögunni segir m.a.:

„Komi fram afgerandi ósk um breytingar á einstökum þáttum frumvarpsins í kynningarferlinu er stjórnlaganefnd heimilt að taka tillit til þeirra.“

Þetta er allt mjög óljóst. Ýmsar ábendingar koma í þessu ferli öllu saman og þá er stjórnlaganefnd heimilt að taka tillit til þeirra. Svo kemur skýrara ákvæði í d-lið, með leyfi forseta:

„Stjórnlagaráð geri tillögu til Alþingis um að frumvarpið fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnvel grein fyrir grein þar sem því verður við komið en þó þannig að fyllsta heildarsamræmis sé gætt.“

Þetta er náttúrlega einhvers konar hringavitleysa. Hér er Alþingi að fela stjórnlagaráði að fela Alþingi einhvern tiltekinn hlut. Það er því miður til samræmis við það sem verið hefur of gegnumgangandi í þessu, skrautleg orðræða, að láta þetta allt hljóma mjög lýðræðislega þegar það er það í rauninni alls ekki.

En þótt ég gagnrýni þessar tillögur og hvernig að þessu er staðið er ekki þar með sagt að ekki hafi komið fram margar góðar tillögur sem líta megi til við breytingar á stjórnarskrá í þeirri umræðu sem farið hefur fram um stjórnarskrána að undanförnu. Ég held einmitt að þingið ætti að líta til margs þess sem verið hefur til umræðu undanfarin missiri varðandi breytingar á stjórnarskrá og gera þá breytingar á stjórnarskránni í samræmi við það. Við ættum ekki að gera það á þeim forsendum að hér sé verið að innleiða byltingu eða að stjórnarskráin hafi orðið til þess að hér varð efnahagshrun.

Maður heyrir líka í tengslum við þessa umræðu ýmiss konar bábylju um að þingið hafi sannað það áratugum saman það ráði ekki við að breyta stjórnarskrá eða að stjórnarskráin sé útlensk og að alltaf hafi staðið til að semja nýja. Í fyrsta lagi er það einfaldlega rangt. Það er margsinnis búið að breyta stjórnarskránni, flestum ákvæðum hennar, til mikilla muna og er lítið orðið eftir af stjórnarskránni frá 1874, væntanlega ekkert meira en segja má til að mynda um það sem eftir er af stjórnarskrá Belgíu í dönsku stjórnarskránni. Eins og ýmsir hafa bent á í umræðunni er sú hugsun sem liggur að baki setningu stjórnarskrár ekki fundin upp í hverju landi fyrir sig, heldur líta menn til góðra hugmynda, þess sem gefist hefur vel annars staðar, og reyna svo smátt og smátt að endurbæta það, laga það að breyttum aðstæðum og að hverju landi fyrir sig. Það hafa menn reynt að gera hér á Alþingi og þeir eiga að halda þeirri vinnu áfram, að endurbæta stjórnarskrána. Þeir eiga að líta til ábendinga sem fram hafa komið í þeim efnum á undanförnum missirum og umfram allt að gera það nú einu sinni almennilega í stað þess að vera að samþykkja hér enn ein lögin og breytingu á stjórnarskrá án tillits til athugasemda frá fræðimönnum og sérfræðingum, án þess að gefa sér nægan tíma í umræðuna og meta afleiðingarnar. Það er nóg komið af slíkri lagasetningu, slíkri tilraunastarfsemi sem ekki hefur gefist vel og er ástæðulaust að innleiða hana við breytingar á sjálfri stjórnarskránni.

Við skulum fara yfir þær tillögur borist hafa og sérstaklega yfir þær ábendingar sem fram hafa komið um gallana og kostina á þeim tillögum og nýta það til að gera skynsamlegar og vel unnar breytingar á íslensku stjórnarskránni þannig að hún verði áfram plagg sem allir geta sætt sig við og virt, en ekki einhvers konar byltingarplagg sem breytt verði á fjögurra ára fresti og ýti undir þá miklu pólitísku óvissu sem verið hefur ríkjandi á Íslandi. Þvert á móti, stjórnarskráin þarf að skapa stöðugleika. Ef það er eitthvað sem hefur vantað á Íslandi undanfarin ár er það pólitískur stöðugleiki.