140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra sagði á Alþingi í gær, og var býsna hróðugur yfir því, að evrusamstarfið væri handan við hornið. Hann sagði að á næstu dögum, hugsanlega í þessari viku, mundu liggja fyrir drög að samningsafstöðu Íslands í sérstökum kafla um myntsamstarfið við ESB. Það er ánægjulegt að hæstv. utanríkisráðherra er í salnum vegna þess að ég ákvað að taka þetta upp núna þar sem hæstv. utanríkisráðherra verður ekki í fyrirspurnatíma á morgun, en þetta gefur tilefni til að velta fyrir sér í hvaða ferli þessar blessuðu samningaviðræður eru nú komnar.

Ég ætlaði að glöggva mig á þessu og skoða þessi svokölluðu samningsmarkmið. Ég verð að viðurkenna að þó að ég sitji í utanríkismálanefnd hef ég ekkert heyrt um þau. Nýjasta fundarfrásögn samningahópsins um gjaldmiðilsmál er ársgömul, hún er frá 22. febrúar 2011. Ef unnið er að samningsafstöðu sem á að birtast á næstu dögum eða í þessari viku velti ég fyrir mér hvar í ósköpunum verið sé að vinna að henni. Það er ekki verið að gera það í þessum blessaða samningahópi og ekki er verið að kynna þessa samningsafstöðu á hinu háa Alþingi. Mér finnst þetta óboðlegt, svona framkoma við Alþingi er ekki líðandi .

Hið sama kemur á daginn þegar fundargerðir samningahópsins um sjávarútvegsmál eru skoðaðar. Þar hefur ekki verið fundað síðan 12. desember og þá var boðað að það ætti að halda tíðari fundi. Ef til stendur að opna kaflann í júní þarf afstaðan að liggja fyrir núna í febrúar. Nú er kominn 22. febrúar og ekkert (Forseti hringir.) bólar á því og ekki hefur verið haldinn fundur, hvað þá tíðari fundir. Ég óttast, virðulegi forseti, að hæstv. utanríkisráðherra sé búinn að missa alla stjórn á þessum ágæta samningahópi sem hann væntir að skili tillögum núna í vikunni. (Gripið fram í.)