140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að ræða aðeins skuldir heimilanna og þær stökkbreytingar sem hafa orðið á fasteignaveðlánum þeirra frá upphafi árs 2008. Það varð alger forsendubrestur á lántökum allra heimila í landinu í kjölfar þess gengishruns sem hófst í upphafi árs 2008. Það gengishrun leiddi til verðbólgu og stökkbreyttra lána vegna verðtryggingar þeirra.

Í gær dreifði Hreyfingin tillögu til þingsályktunar til allra þingflokka þar sem við styðjumst við ákveðna aðferðafræði í viðleitni okkar til að koma lagi á þessi mál og lagfæra það gríðarlega óréttlæti sem fylgir því að heimilin eru með verðtryggð lán. Við óskum einlæglega eftir því að fá aðra flokka á þingi til samstarfs við okkur um þetta mál. Mjög gott væri að ná einhvers konar þverpólitískri samvinnu eða samráði ef hægt er um þetta mál eða eitthvert sambærilegt mál með sömu markmið. Við teljum mikilvægt að Alþingi nái saman um aðgerðir til að laga skuldamál heimilanna. Yfir 70 þús. heimili í landinu eru með verðtryggð lán og fjölmörg þeirra eru í miklu fjárhagslegu uppnámi út af því.

Þess vegna langar mig fyrir hönd Hreyfingarinnar að beina því til þingmanna í salnum og þingflokka á þingi að menn leggist yfir það af fyllstu alvöru að skoða leiðir til að laga þessi mál þannig að úr rætist af einhverri alvöru fyrir öll heimili í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)