140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins í umræðuna sem þegar hefur átt sér stað um nýgenginn hæstaréttardóm. Það er eðlilegt á þeim tímum sem við stöndum á núna að hugað sé sérstaklega að úrvinnslu á þessum dómi. Við þurfum að fara rækilega yfir það hversu víðtækar afleiðingar dómurinn hefur og hvernig rétt er að vinna úr honum. Það er mikilvægt að við gefum nauðsynlegt svigrúm fyrir samráð um það hvernig það verður gert.

Hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi atriði sem voru til umfjöllunar á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun, svo sem aðförina, flýtimeðferð og endurupptöku mála. Ég tel að öll þessi þrjú atriði séu nokkuð sem mikilvægt er að fara yfir og hvet að sjálfsögðu til þess að áfram verði unnið að því á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar ásamt þá með ráðuneytum og öðrum aðilum sem málinu tengjast.

Ég hvet líka til þess að í þessari umræðu gæti menn að því að fara ekki fram úr sjálfum sér, lofa ekki upp í ermina á sér einhverju sem menn geta ekki staðið við. Það er mikilvægt að halda ró sinni og gæta hófs í málflutningi. Það breytir ekki því að það eru margir þættir þessa máls sem þarf að skoða gaumgæfilega og taka á. Ég nefni sérstaklega mál eins og lánsveðin og ábyrgðarmennina. Það er mál sem að mínu mati er mjög brýnt að taka á, einkum og sér í lagi að horfa til stöðu þeirra sem eru með lágar eða meðaltekjur, afkomu þeirra og greiðslubyrði.

Það er líka mikilvægt í þessu samhengi, frú forseti, að minna á að það er mikilvægt að tekist hafi að ná tökum á ríkisfjármálunum. Horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar fara batnandi eins og allar mælingar benda til og er viðurkennt. Það er einmitt augljós forsenda fyrir bættri afkomu heimila og atvinnulífs í landinu.