140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vildi vekja athygli þingheims og þjóðar á málefnum hælisleitenda. Það kom upp athyglisverð umræða um mikilvægi þess að stytta verulega þann tíma sem það tekur að afgreiða umsókn um hæli á Íslandi með því að veita Útlendingastofnun aukið fé til að ráða fleira starfsfólk. Það kom fram í máli forstjórans, Kristínar Völundardóttur, sem færði sannfærandi rök fyrir því að vegna mikillar fjölgunar hælisleitenda á allra síðustu árum — þeim hefur fjölgað úr 51 árið 2010 í 65 árið 2011 og stefnir í að þeir verði töluvert fleiri en það á árinu 2012 — hafi sífellt meira rekstrarfé Útlendingastofnunar farið í að greiða umönnunarkostnað vegna hælisleitenda sem er um 1 millj. kr. á mánuði. Hefur stofnunin fært rök fyrir því að með því að flýta málum hælisleitenda með því að fjölga lögfræðingum við stofnunina mætti stytta tímann um helming. Það er líka mikilsvert mannréttindamál að hraða þessu ferli af því að það er mjög óþægilegt og óheppilegt þegar hælisleitendur þurfa að búa mánuðum saman, upp undir ár, eftir úrlausn mála sinna. Það má hraða því með litlum fjármunum sem um leið spara ríkinu mjög mikið því að þetta kemur allt niður á sama stað. Með því að setja meiri peninga og slagkraft í málsmeðferð hælisleitenda má annars vegar spara mikið fé vegna hins mikla kostnaðar við uppihald hælisleitenda og einnig stórbæta mannréttindi hælisleitenda sem flestir eru hér af brýnni nauðsyn. Við getum þá unnið hraðar úr málum og jafnvel tekið á móti fleiri hælisleitendum sem sækja af brýnum ástæðum um leyfi til búsetu á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)