140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Nýgenginn hæstaréttardómur hefur sett hóp skuldara í nýja stöðu. Ekki er hins vegar alveg á hreinu hvernig þessi dómur snertir þann hóp og á hvaða hópa hann hefur bein áhrif. Enn eru óljós nokkur mál, t.d. hvað snertir bílalán, lán til fyrirtækja og þeirra sem ekki geta sýnt fram á fullnaðarkvittun fyrir greiðslu.

Hér hafa verið nokkrar umræður um almennar aðgerðir en gætum að því að skuldum verður ekki aflétt nema einhver greiði fyrir þær. Því miður eru ekki til neinar hókus-pókus lausnir í þessum heimi. Gætum að því til dæmis að 20% flöt niðurfelling íbúðaskulda hjá Íbúðalánasjóði kostar ríkissjóð 135 milljarða kr. og einhver þarf að leggja út fyrir þeirri upphæð. 20% flöt niðurfelling kostar lífeyrissjóðina 36 milljarða og með ríkisábyrgð á lífeyrisskuldbindingum ríkisstarfsmanna mun ríkið að einhverju leyti koma að þeirri upphæð.

Gætum líka að því að í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að 10% heimila voru í vanskilum með húsnæðislán eða leigu á síðustu 12 mánuðum en þetta mun vera svipað hlutfall og var árin 1995–1996. Hins vegar eru um 12% heimila í vanskilum með önnur lán sem stundum hafa verið kölluð neyslulán. Við þurfum því að gæta okkar, ágæti þingheimur, og stíga varlega til jarðar. Munu almennar aðgerðir ná markmiðum sínum eða munu þær skapa fleiri vandamál en þeim er ætlað að leysa? Hvað verður um velferðarkerfið ef við sækjum of hart að til dæmis ríkissjóði? Hvað verður um bótakerfið í landinu? Getum við í raun og veru hjálpað þeim sem verst standa í samfélaginu ef gengið er of langt og menn lofa upp í ermina á sér?

Þess vegna hvet ég þingmenn og þingheim til að stíga varlega til jarðar við þessa umræðu. Skuldir verða ekki lækkaðar nema peningarnir komi einhvers staðar annars staðar að. Það þarf alltaf einhver að leggja út fyrir því ef við ætlum að lækka skuldir heimilanna.