140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til að hvetja þingmenn stjórnarmeirihlutans til að veita ráðherrum sínum meira aðhald og sérstaklega reyna að beina þeim inn á réttar brautir hvað forgangsröðun varðar. Við höfum hvað eftir annað orðið vör við að forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar er mjög skökk og í stað þess að leiðrétta þann kúrs er brugðist við með afneitunum og oft og tíðum jafnvel hreinum rangfærslum og ósannindum eins og hefur verið áberandi hjá meðal annars hæstv. utanríkisráðherra að undanförnu. Hæstv. utanríkisráðherra sagði til dæmis hér í umræðu að Framsóknarflokkurinn hefði lagt það eitt fram sem skilyrði fyrir stuðningi við minnihlutastjórn í þrjá mánuði að ráðist yrði í stjórnlagaráð. Stjórnlagaráð var að vísu nefnt og þar skipti verklagið öllu en skilyrðin sem ríkisstjórnin þurfti að uppfylla og loforðin sem hæstv. núverandi utanríkisráðherra þurfti að gefa voru að ráðast í leiðréttingu skulda heimilanna í samræmi við þau tækifæri sem þá voru til staðar og að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir í atvinnumálum. Það var aðaláherslan.

Þetta var svikið, það er ekki hægt að kalla það annað, þetta var hreinlega svikið og í ljósi þess að hæstv. núverandi utanríkisráðherra var í raun ábyrgðarmaður þeirrar ríkisstjórnar, valdi meira að segja forsætisráðherrann, maðurinn sem gaf loforðin um að við þetta yrði staðið, þykir mér heldur undarlegt að heyra hann halda öðru fram núna, segja hreinlega rangt frá myndun þeirrar ríkisstjórnar og telja sig komast upp með það þegar þetta lá allt opinberlega fyrir á sínum tíma.

Nú kemur hér hver þingmaður stjórnarliðsins á fætur öðrum í ræðustól til að tala um kostnaðinn við almenna leiðréttingu lána. Það er eflaust rétt að almenn leiðrétting fæli í sér mikinn kostnað núna en allar áminningar um þann mikla kostnað eru um leið áminning um þá tugi milljarða, líklega mörg hundruð milljarða, sem ríkisstjórnin kastaði á glæ með því að ráðast ekki í þessar aðgerðir á meðan tækifæri var til í minnihlutastjórninni þar sem hæstv. núverandi utanríkisráðherra gaf loforð (Forseti hringir.) um að ráðist yrði í þessar aðgerðir sem ekki var staðið við.