140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Á eftir greiðum við atkvæði um það hvort endurvekja eigi stjórnlagaráð vegna þeirrar skýrslu sem liggur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í fyrirliggjandi tillögu að breytingu á þingsályktunartillögunni er mælst til þess að farið verði í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað sem er ekki búið að ákveða eins og fram hefur komið.

Ég vil minna frú forseta á að á síðasta þingi lagði ég fram þingsályktunartillögu um hvort ætti að draga til baka í þjóðaratkvæðagreiðslu þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar hvort halda eigi áfram ESB-aðlögunarferlinu eða ekki. Á þessu þingi endurnýjaði ég þá tillögu, miðaði mörkin við 1. mars og hef nú framlengt til þess dags sem forsetakjör fer fram.

Þar sem þessar tillögur eru svo samkynja, þessi tillaga sem líklega verður samþykkt á eftir um að beina skýrslu stjórnlagaráðs til þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakjöri, og tillaga mín, geri ég það að tillögu minni að þingsályktunartillaga mín sem ekki hefur fengist rædd í þinginu verði sett á dagskrá þess og þá getur þjóðin tekið ákvörðun um það í leiðinni hvort halda eigi áfram þessu aðlögunarferli eða ekki. Þetta eru samkynja tillögur og það er í raun langtum brýnna að greiða þjóðaratkvæði um ESB en þessar breytingar á stjórnarskránni. Ég hvet forseta þingsins til að veita þessu máli brautargengi á næstu dögum þannig að hægt sé að ræða þessi mál samhliða. Líklega kemur í næstu viku inn í þingið þingsályktunartillaga með þeim spurningum sem leggja á fyrir þjóðina vegna stjórnarskrárbreytinganna.

Ég óska þess, frú forseti, að það verði tekið vel í þessa tillögu mína því að forseti þingsins er forseti allra þingmanna (Forseti hringir.) og hér eiga allar þingsályktunartillögur að vera jafnréttháar, hvort sem það er stjórnarandstæðingur eða stjórnarmeðlimur (Forseti hringir.) sem leggur þær til.