140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þessi atkvæðagreiðsla er eitt skref af mjög mörgum sem er verið að taka til að setja landinu og þjóðinni nýja stjórnarskrá. Þessi ferð hófst með þjóðfundi þúsund manna fyrir þremur árum sem var valinn með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Slíkt slembiúrtak gefur fullkomið þversnið af þjóðinni og er fullkomin aðferð til að ná fram hugmyndum heillar þjóðar um hvernig stjórnarskrá á að líta út. Þær hugmyndir fóru inn í stjórnlaganefnd sem Alþingi samþykkti að yrði valin. Hún vann þær hugmyndir og sendi síðan í stjórnlagaráð sem var kjörið af 84 þús. Íslendingum. (Gripið fram í: Nei, …) (VigH: Ógilt.)

Nú erum við komin á næsta reit í málinu, að vísa því aftur til stjórnlagaráðs til að laga einhverja vankanta sem kunna að vera á því. Síðan verður þjóðin beðin um að segja álit sitt á því (Forseti hringir.) áður en Alþingi fær málið til formlegrar meðferðar næsta haust. (Gripið fram í.) Það er besta aðferð sem til er til (Gripið fram í.) að skrifa nýja stjórnarskrá. Það er bara þannig. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)