140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Allt frá vormánuðum ársins 2009 höfum við í Sjálfstæðisflokknum óskað eftir því að hafin yrði á Alþingi endurskoðunarvinna við stjórnarskrána. (Gripið fram í: Nú?) Það hefur ekki verið hægt að hefja þá vinnu á Alþingi.

Meiri hluti þingsins komst að þeirri niðurstöðu að það yrði að koma á stjórnlagaþingi sem breyttist á síðari stigum í stjórnlagaráð. Það ráð lauk störfum og skilaði þinginu skýrslu. Enn hefur ekki farið fram efnisleg umræða um niðurstöðu þeirrar skýrslu, heldur ætlar meiri hluti þingsins greinilega að endurvekja stjórnlagaráðið og efna svo til þjóðaratkvæðagreiðslu. Allt þetta á að gerast án þess að þingið hefji vinnu við að skoða efnisatriði málsins. Þetta dregur fram í hvers konar ótrúlegar ógöngur hæstv. forsætisráðherra hefur stefnt endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er alveg með ólíkindum (Gripið fram í.) að menn skuli vera staddir á þessum stað með þessa vinnu, þessa gríðarlega miklu vinnu, (Gripið fram í.) á þriðja ári eftir að ríkisstjórnin tók við. (Forseti hringir.) Þremur árum eftir að ríkisstjórnin tók við er þetta komið í alveg ótrúlegar ógöngur. Það er ekki nema von að menn beri lítið traust (Forseti hringir.) til þingsins þegar svona er haldið á jafnmikilvægum málum og þessum. (Gripið fram í: … örugglega betur …)