140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Breytingar á stjórnarskránni hafa reynst Alþingi mjög erfiðar í gegnum tíðina. Þess vegna var ég reiðubúinn að stíga skref í að stofna stjórnlagaráð þegar Hæstiréttur dæmdi kosninguna til stjórnlagaþings ógilda.

Nú er fullyrt að hér sé um að ræða skref áfram veginn en ég er einfaldlega ekki sannfærður um það. Engin efnisleg umræða hefur farið fram innan Alþingis og ég gerði það að skilyrði fyrir því að samþykkja stjórnlagaráð á sínum tíma að efnisleg umræða færi fram í salnum. Ég skil ekki af hverju nefndin sem hefur málið til umfjöllunar, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu, kemur sér ekki saman um að ræða málin á málefnalegan hátt.

Ég hef áhyggjur af því að boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla gæti hugsanlega ónýtt málið vegna þess að ekki liggur fyrir um hvað á að spyrja. Ef til dæmis á að spyrja um tillöguna í heild sinni, sem gæti vel verið, (Forseti hringir.) held ég að þjóðin muni segja nei.

Í ljósi þess að ég er mjög áfram um það (Forseti hringir.) að ný stjórnarskrá muni líta dagsins ljós og er reiðubúinn að taka þátt í þeirri vinnu mun ég sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu, (Forseti hringir.) sérstaklega í ljósi þess að mér sýnist sem þetta skref sem á að vera áfram veginn gæti verið (Forseti hringir.) aftur á bak.