140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það liggur við að manni fallist hendur þegar maður sér þær röksemdir og það vinnulag sem meiri hlutinn leggur fram ásamt Hreyfingunni og ákveðnum öðrum þingmönnum í þessu máli. Menn eru að toppa sig í einhvers konar flækju sem ekki er hægt að finna nein rök fyrir. (VigH: Rétt mat.) Það kemur meðal annars fram í afstöðu eins þeirra sem sátu í stjórnlagaráði. Það er skoðun Pawels Bartoszeks sem birtist í Deiglugrein hans í gær. Hann segir, með leyfi forseta, að „þeir þingmenn sem ýtt hafa þessu máli áfram nú, hafa algjörlega vanrækt þær skyldur sem lagðar eru á þá sem stjórnarskrárgjafa“.

Jafnframt kemur hér fram:

„Ráðgefandi stjórnlagaráð mun ekki setja stjórnarskrá. Það mun þingið gera. Og fyrst þingið virðist hvorki hafa skoðun á stjórnarskrá né vilja til að rýna af viti í þær tillögur sem því berast, þá hef ég að sinni takmarkaðan áhuga á að veita því frekari ráð.“

Ég tel að þeir þingmenn sem eru að ýta þessu máli áfram ættu að hafa stórar áhyggjur af þessu orðalagi og þessari skoðun þessa fyrrverandi (Forseti hringir.) aðila í stjórnlagaráði. Ég segi nei.