140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því að við erum hér í sjálfu sér ekki að taka endanlega ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Samkvæmt tillögunni er í raun verið að samþykkja að önnur tillaga verði samþykkt um það síðar. Í umræðum um málið kom fram, a.m.k. af hálfu sumra þeirra sem styðja það ferli sem nú er verið að setja í gang, að það eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem tillögurnar sem lagðar verða fyrir þjóðina eru ekki á ábyrgð nokkurs manns. Enginn mun gera þær að sínum og leggja þær í dóm kjósenda.

Stjórnlagaráðshugmyndin, drög að stjórnarskránni sem er verið að smíða og til stendur af meiri hlutanum að láta betrumbæta áður en þau fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, verður ekki lögð fyrir þjóðina af hálfu eins eða neins. Ég tel að með þessu skrefi og þeirri hugmyndafræði sem er hér verið að leggja grunn að (Forseti hringir.) sé verið að vinna hugmyndinni um þjóðaratkvæði, almennt séð sem fyrirbæri í stjórnarskránni mögulega í framtíðinni, mikinn skaða og rugla (Forseti hringir.) með þá hugmynd og þvæla inn aðferðafræði sem muni grafa undan trausti á þjóðaratkvæðagreiðslum (Forseti hringir.) sem úrræði í lýðræðislegu samfélagi.