140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég efast ekki um að hér inni eru mjög margir þingmenn sem að eigin mati og kannski einhverra annarra geta skrifað heila stjórnarskrá. En þrátt fyrir æpandi þörf allan lýðveldistímann fyrir frumsamda stjórnarskrá fyrir Íslendinga sem tæki á auðlindamálum, verkaskiptingu helstu valdastofnana í samfélaginu og þar fram eftir götunum hefur þinginu ekki tekist að skrifa þjóðinni stjórnarskrá. Ég minni á þetta atriði til að mönnum sé ljóst af hverju við ákváðum að fara í þetta ferli sem snýst um víðtækt samráð við þjóðina. Hafa aðrir ræðumenn í dag, í gær og áður rakið hvert þetta ferli er.

Ég minni líka á að þetta er 11 skrefa ferli, held ég, og við erum að stíga núna skref sex sem snýst um að — (Gripið fram í: Tólf spora kerfið.) Þetta er 11 spora kerfi. Spor níu, held ég, ég rakti þetta í ræðu í gær, (Gripið fram í.) er þegar Alþingi (Forseti hringir.) á endanum — Alþingi hefur að sjálfsögðu öll völd í þessu máli — mun taka stjórnarskrána til umfjöllunar. Svo verða alþingiskosningar og svo þarf nýtt Alþingi að taka stjórnarskrána líka til umfjöllunar. (Forseti hringir.) Það hefur ekki breyst. Það eina sem við erum að gera, og það er athyglisvert hvað það stendur í fólki hér inni, er að við erum í samráðsferli. (Forseti hringir.) Ég styð það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)