140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

náttúruvernd.

63. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti ásamt breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd, með síðari breytingum.

Umhverfis- og samgöngunefnd hefur fjallað um málið og fengið ýmsa umsagnaraðila á sinn fund.

Tilgangur frumvarpsins er að herða á þeim ákvæðum sem heimila refsingar vegna brota á lögum um náttúruvernd.

Fram kemur í 1. gr. frumvarpsins að ef stórfelld spjöll verða á náttúru landsins skuli sá sem veldur tjóni sæta sektum að lágmarki 250.000 kr. eða fangelsi allt að fjórum árum. Sambærilegt ákvæði er að finna í 179. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en þar segir að hver sá sem gerist sekur um meiri háttar brot gegn lagaákvæðum um verndun umhverfis, með verknaði sem tilgreindur er í þremur töluliðum, skuli sæta fangelsi allt að fjórum árum. Veruleg spjöll á landslagi og náttúruminjum, þar með talið á friðlýstum svæðum, varða refsiábyrgð samkvæmt 3. tölulið. Hjá nokkrum umsagnaraðilum kom fram að mikilvægt væri að skýra hvað felst í hugtakinu stórfelld spjöll. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir þetta og áréttar að mikilvægt sé að grundvöllur refsiábyrgðar sé skýr. Í Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands kemur fram að mikilvægt sé að brot sem varða refsingu séu skilgreind af kostgæfni og að refsing sé stigskipt eftir alvarleika brota. Brot sem talin eru alvarleg eru brot sem fela í sér náttúruspjöll á friðlýstum svæðum, eyðing tegunda og spjöll sem hafa í för með sér verulega fækkun tegundar eða innan tegundar sem og meiri háttar jarðrask og rask á jarðminjum. Það er þó jafnframt mat meiri hlutans að alvarleg brot eigi að ná til fleiri svæða en friðlýstra, þ.e. einnig svæða sem njóta eiga sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. núverandi náttúruverndarlaga. Meiri hluti nefndarinnar leggur því til þá breytingu á frumvarpinu að í stað orðanna „stórfelld spjöll“ komi „alvarleg spjöll“ því að, svo að ég skjóti því hér inn, nefndin telur rétt að gera greinarmun á umfangi og alvarleika. Jafnframt vill meiri hlutinn árétta alvarleika náttúruspjalla í heild sinni og leggur til að fjárhæð sektar verði hækkuð í 350.000 kr. Þá er um að ræða alvarleg spjöll sem eru óafturkræf og náttúran aldrei söm á eftir. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi leggja áherslu á mikilvægi kynningar og fræðslu svo að fólk sé meðvitað um alvarleika slíkra brota og áhrifa þeirra á náttúru og að það tilkynni til réttra aðila ef það verður vitni að slíku athæfi.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um upptöku ökutækja með dómi en einnig er gert ráð fyrir því að gera megi upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis þeirra í heild eða að hluta. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að greinin sæki fyrirmynd sína í 69. gr. almennra hegningarlaga. Það er hins vegar mat meiri hluta nefndarinnar að slík framkvæmd geti verið erfiðleikum háð þar sem ekki er í þessu sambandi verið að afla muna eða ávinnings með broti. Því leggur meiri hlutinn fram þá breytingu að ákvæðið samsvari 107. gr. a núgildandi umferðarlaga, nr. 50/1987, um upptöku ökutækja en þar er gert ráð fyrir að upptöku megi beita vegna hvers kyns brota á umferðarlögum, sé um gróf eða ítrekuð brot að ræða. Meiri hlutinn leggur einnig til þá breytingu að upptaka ökutækja sé ekki heimil ef ökutækið er eign manns sem ekkert er við brotið viðriðinn. Meiri hlutinn bendir á í þessu sambandi að ökutæki geti verið í útleigu, t.d. bílaleigubíll, eða að eigandi bifreiðar og ökumaður séu ekki sami aðili.

Að lokum bendir meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar á að fyrir þinginu liggur nú frumvarp umhverfisráðherra sem ætlað er að stuðla að því markmiði að styrkja lagaákvæði um bann við akstri utan vega, þ.e. 225. mál, en þar er hugtakið „vegur“ skilgreint í fyrsta skipti.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 1. gr.:

a. Í stað orðanna „stórfelld spjöll“ komi: alvarleg spjöll.

b. Í stað upphæðarinnar „250.000 kr.“ komi: 350.000 kr.

Þá leggur nefndin til að 2. gr. orðist svo:

Á eftir 76. gr. laganna kemur ný grein, 76. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upptaka ökutækis.

Þegar alvarleg spjöll verða á náttúru landsins við akstur eða hann telst sérlega vítaverður að öðru leyti má gera upptækt með dómi vélknúið ökutækið sem notað hefur verið við framningu brots gegn ákvæðum laga þessara, nema ökutækið sé eign manns sem ekkert er við brotið riðinn.

Hv. þingmenn Mörður Árnason og Ásmundur Einar Daðason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þingmaðurinn Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti, sem að standa þingmennirnir: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður, Ólína Þorvarðardóttir, Þuríður Backman, Róbert Marshall og Arndís Soffía Sigurðardóttir.